Hoppa yfir valmynd
7. desember 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjármunir til menntamála eru ekki útgjöld, heldur fjárfesting

Í stjórnarsáttmálanum leggur ríkisstjórnin sérstaka áherslu á að efla list-, iðn-, verk- og starfsnám sem og aukna tækniþekkingu enda munu þessir þættir gera íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu. Sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, það afar ánægjulegt að fá tækifæri til að sækja heim fjölbrautaskóla sem gerir þessum greinum svo hátt undir höfði.

Fjölbraut í Breiðholti er fyrsti fjölbrautaskólinn sem stofnaður var hér á landi en hann var opnaður árið 1975.  Við skólann eru nú 1.457 nemendur í dag- og kvöldskóla á sextán bók- og verknámsbrautum. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari tók á móti ráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins. Í heimsókn sinni kynnti ráðherra sér ýmsar námsbrautir, svo sem myndlistarbraut, rafvirkjabraut, tölvubraut og húsasmíðabraut, auk þess að skoða Fab Lab smiðjuna en hún þjónar bæði nemendum skólans sem og frumkvöðlum og fyrirtækjum. Fab Lab smiðjan er rekin í samstarfi skólans, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Reykjavíkurborgar.

Á kennarastofunni átti ráðherra samtal við kennara og starfsfólk skólans. Elín Þóra Rafnsdóttir, kennari á myndlistarbraut segist vera stolt af þeim nemendum sem hafa útskrifast úr FB: „Við erum með nám sem skiptir máli fyrir samfélagið. Nemendur okkar öðlast kjark og þor til að sækja um framhaldsnám innanlands og erlendis og skila sér glæsilega í fjölbreytt skapandi störf í samfélaginu. Auk þess að vera starfandi sem listamenn má nefna að einn af nemendum okkar er orðinn aðal úrahönnuður hjá Swarowski, nokkrir veita þekktum söfnum forstöðu, aðrir eru hönnuðir hjá þekktum fyrirtækjum eða starf við sviðs- og búningahönnun í leikhúsum. Þess má líka geta að einn af nemendum okkar hannaði ásamt samstarfsfólki sínu ljósagjörning Amnesty International á Hallgrímskirkju sem sýndur var fyrir stuttu.“

Lilja sagði þetta sýna svo ekki um væri villst að ráðuneyti mennta- og menningarmála væri ekki útgjaldaráðuneyti heldur fjárfestingaráðuneyti.

  • $alt
  • $alt
  • $alt
  • $alt
  • $alt
  • $alt

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum