Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Siðareglur ráðherra og endurskoðun þeirra

Ríkisstjórnin fjallaði á fundi sínum í morgun um siðareglur ráðherra. Nú eru í gildi siðareglur ráðherra nr. 190/2017 og hafa þær ekki tekið miklum efnislegum breytingum frá því þær voru fyrst gefnar út vorið 2011. Áframhaldandi umræða verður um reglurnar á vettvangi ríkisstjórnar á næstu vikum með það fyrir augum að meta hvernig megi skerpa á tilteknum atriðum er varða efni reglnanna og framkvæmd.

Ákveðið var að forsætisráðherra myndi kalla til utanaðkomandi sérfræðinga til ráðgjafar ekki einungis varðandi siðareglur ráðherra heldur einnig varðandi heilindi í opinberum störfum í víðara samhengi. Ráðgert er að setja á fót starfshóp sem mun ráðleggja og aðstoða við að ná fram eftirfarandi þáttum úr stjórnarsáttmála: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Einn þáttur í því er að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum. Annar þáttur er breytingar á lögum sem varða vernd uppljóstrara og umbætur í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana.“ Þá verður gætt að lögbundnu samráði við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili skýrslu til forsætisráðherra eigi síðar en 1. september 2018.

Ríkisstjórnin mun staðfesta fyrir sitt leyti og starfa eftir framangreindum siðareglum ráðherra á meðan unnið er að endurskoðun samkvæmt framangreindu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira