Hoppa yfir valmynd
9. desember 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Listnám og skapandi greinar eru framtíðin

Myndin var máluð af fjögurra ára gömlum dreng í skólanum árið 1961. - mynd

,,Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í skapandi samfélagi. Þess vegna skiptir máli að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Hlutverk stjórnvalda er að búa til skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs’’ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, meðal annars í 70 ára afmæli Myndlistarskólans í Reykjavík í dag.

Upphafið að starfi Myndlistarskólans í Reykjavík má rekja aftur til vorsins 1946 þegar að Félag íslenskra frístundamálara var stofnað til að auðvelda aðgengi að tilsögn í myndlist. Kennsla við skólann hófst loks síðla árs 1947 og strax árið 1948 var starfið blómlegt og voru meðal annars barnanámskeið skólans eftirsótt.

Frá stofnun skólans hafa mörg þúsund manns á öllum aldri notið leiðsagnar hans í hinum ýmsu listgreinum. Í dag stunda um 160 nemendur nám við skólann. Áslaug Thorlacius skólastjóri Myndlistarskólans tók á móti ráðherra og ráðuneytisstjóra og kynnti þeim starfsemi skólans. Í dag býður skólinn meðal annars upp á tveggja ára nám til stúdensprófs og eins árs fornám fyrir þá sem hyggja á nám við listaháskóla ásamt áfanganámi í keramiki, málarlist, teikningu og textíl.

,,Ég er mjög stolt af starfi Myndlistarskólans og ánægð með þróun hans í þau 70 ár sem hann hefur verið starfræktur’’ sagði Áslaug á þessum merku tímamótum.

Kröftugt félagslíf er einnig rekið af nemendum innan veggja skólans og munu þeir meðal annars vera með jólabasar á Oddsson um næstu helgi.

Lilja lagði áherslu á að gróska í listnámi og skapandi greinum spili lykilhlutverk í að auka samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar tekur sérstaklega mið af þessu þar sem kveðið er á um að efla listnám og styrkja umhverfi skapandi greina.

 


  • Listnám og skapandi greinar eru framtíðin - mynd úr myndasafni númer 1
  • Listnám og skapandi greinar eru framtíðin - mynd úr myndasafni númer 2
  • Listnám og skapandi greinar eru framtíðin - mynd úr myndasafni númer 3

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum