Velferðarráðuneytið

Kostir rafrænna fylgiseðla með lyfjum til skoðunar

Lyfjastofnun Evrópu er með til skoðunar hvernig nota megi rafrænar leiðir til að miðla upplýsingum um lyf til sjúklinga á öruggan hátt. Á norrænum vettvangi er rætt um að Norðurlandaþjóðirnar sækist sameiginlega eftir því að fá reglum Evrópusambandsins breytt þannig að heimilt verði að selja lyf með rafrænum fylgiseðlum.

 

Sagt er frá þessu á vef Lyfjastofnunar. Þar kemur m.a. fram að Lyfjastofnun Evrópu og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætli að efna til vinnustofu á næsta ári þar sem fjallað verði um hvernig megi nýta betur rafrænar leiðir til að miðla upplýsingum um lyf til notenda. Til þátttöku verða boðaðir notendur, heilbrigðisstarfsfólk, lyfjaframleiðendur og stjórnvöld aðildarríkjanna. Lyfjastofnun Evrópu hefur óskað eftir upplýsingum um verkefni sem fela í sér frumkvæði og tilraunir á þessu sviði og geta áhugasamir sent upplýsingar um það á netfangið netfangið [email protected], eða með því að taka þátt í könnun sem stendur til í loka febrúar á næsta ári.  

Samkvæmt gildandi reglum Evrópusambandsins skulu lyfjapakkningar innihalda fylgiseðil með viðkomandi lyfi á tungumáli þess lands þar sem lyfið er selt. Að mati Landamærahindranaráðs Norrænu ráðherranefndarinnar felur þetta í sér ýmsa annmarka, einkum meðal fámennra þjóða með eigið tungumál. Af hálfu ráðsins er því þrýst á um að breyta reglunum þannig að ríkjum verði heimilt að nota rafræna fylgiseðla. Á vef Lyfjastofnunar segir að með því gætu apótekin prentað út fylgiseðla á íslensku eða öðru tungumáli sem hentaði viðskiptavininum. Kostir þessa væru m.a. að auðveldara væri fyrir Íslendinga að taka þátt í sameiginlegum lyfjainnkaupum með öðrum þjóðum og ná með því niður kostnaði, sóun myndi minnka þar sem ekki þyrfti að farga lyfjum sem búið væri að pakka ef breyta þyrfti fylgiseðlum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn