Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálastefna 2018-2022

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu að fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022.

Meginmarkmið fjármálastefnunnar er að umtalsverður afgangur verði á afkomu opinberra aðila í heild á tímabilinu, eða um 3% af VLF öll árin, en þar af verði afgangur A-hluta ríkis og sveitarfélaga 1,4% af VLF í fyrstu en lækki smám saman niður í 1%. Samhliða þessum ágæta árangri, sem er til þess fallinn að hægja á fremur en að ýta undir áfram¬haldandi eftirspurnarvöxt í hagkerfinu, verður kleift að styrkja grunnþjónustu og innviði og stuðla að því af hálfu stjórnvalda að allir landsmenn njóti góðs af yfirstandandi hagvaxtarskeiði.

Fjármálastefnan er lögð fram á grundvelli laga um opinber fjármál sem kveða á um að slík stefna skuli lögð fram svo fljótt sem auðið er eftir að ríkisstjórn hefur verið mynduð, þó eigi síðar en samhliða framlagningu næsta fjárlagafrumvarps.

Fjármálastefna skal skilgreina markmið er varða umfang, afkomu og þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga hins opinbera og opinberra aðila í heild og til eigi skemmri tíma en fimm ára. Markmið stefnunnar skulu sett fram sem hlutföll af vergri landsframleiðslu (VLF). Hún skal byggð á grunngildum um sjálfbærni opinberra skuldbindinga til skemmri og lengri tíma litið, almennri varfærni, svo sem varðandi jafnvægi milli tekna og gjalda, stöðugleika í efnahagsmálum, festu í stefnu og framfylgd áætlana um þróun opinberra fjármála og gagnsæi, sem felst m.a. í skýrum og mælanlegum markmiðum til meðallangs tíma. Þá skal fjármálastefnan mæta skilyrðum laga um opinber fjármál hvað varðar fjármálareglur um þróun afkomu og skulda. Megintilgangur fjármálastefnunnar er að stuðla að efnahagslegu jafnvægi til lengri tíma litið svo að sem mestur stöðugleiki verði í efnahag fyrirtækja og heimila sem og opinberra aðila.

Fjármálastefnu er ætlað að leiða fram í stórum dráttum, í fyrsta lagi, hvaða hagstjórnar-legu áhrif verði af fyrirætlunum um þróun opinberra fjármála með hliðsjón af fyrirliggjandi hagspám og í öðru lagi, hvernig stjórn þeirra muni samrýmast bæði grunngildum á borð við stöðugleika og tölulegum fjármálareglum. Í árlegri fjármálaáætlun eru hins vegar pólitískar áherslur og áætlanir stjórnvalda settar fram með mun útfærðari hætti, þar sem m.a. koma fram áform um tekjuöflun og ráðstafanir í skattamálum sem og uppbyggingu þjónustukerfa og innviða og aðrar breytingar á opinberri starfsemi.

Með hliðsjón af núverandi efnahagshorfum og horfum í fjármálum hins opinbera eru helstu stefnumið í opinberum fjármálum næstu fimm ár eftirfarandi:

Hlutfall af vergri landsframleiðslu, % 2018 2019 2020 2021 2022
Hið opinbera, A-hluti
- Heildarafkoma ................................. 1,4 1,2 1,1 1,0 1,0
- Skuldir* ........................................... 33,8 31,0 28,5 27,3 25,0
Opinberir aðilar í heild
- Heildarafkoma ................................. 2,9 3,0 3,0 3,0 3,0
- Skuldir* ........................................... 59,8 55,0 50,5 48,3 45,0

* Heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, sbr. 7. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál.

I. Afgangur verði á heildarjöfnuði hins opinbera tímabilið 2018–2022, sem verði að lágmarki 1,4% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2018, 1,2% af VLF árið 2019, 1,1% af VLF 2020 og 1,0% af VLF á ári þar á eftir.
II. Heildarskuldir hins opinbera verði komnar undir 30% af VLF í árslok 2020 og verði ekki hærri en 25% af VLF í árslok 2022.
III. Heildarútgjöld hins opinbera vaxa á árinu 2018 um 0,6% af VLF frá fyrra ári. Þróun á umfangi starfsemi hins opinbera út tímabilið verði með þeim hætti að það stuðli að efnahagslegum stöðugleika.

Fjármálastefnan byggist á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá nóvember 2017, sem nær til áranna 2017–2023. Vert er að nefna að fjármálastefnan byggist á hagfelldri hagspá fyrir allt spátímabilið, þó að hagvöxtur næstu ára verði öllu minni en á árinu 2016 þegar hann var 7,4%. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði 4,9% á yfirstandandi ári og að uppsafnaður hagvöxtur yfir gildistíma stefnunnar verði ríflega 14%.

Fjármálastefnan miðar að því að tryggja hæfilegt jafnvægi milli gjalda og tekna hins opinbera samtímis því sem stefnan skapi traustar forsendur til að efna áform og styðja við þau pólitísku markmið sem ríkisstjórnin hefur sammælst um og fram koma í samstarfssáttmála hennar. Staða ríkissjóðs er traustari en hún hefur verið um árabil og þær horfur, sem lög bjóða að stefnumörkun í opinberum fjármálum skuli grundvallast á, eru jákvæðar, þótt rétt sé að taka alvarlega og bregðast við teiknum um að hægja muni á í efnahagslífinu á næstu árum. Batnandi staða ríkissjóðs er nýtt til að styrkja innviði, bæði félagslega og hlutbundna, um leið og áhersla er lögð á að útgjaldastefnan tryggi velferðarþjónustu á breiðum grunni og stuðli að jöfnuði og samfélagslegri sátt. Þess er þó áfram gætt að halda áfram niðurgreiðslu skulda þannig að ríkissjóður verði örugglega í færum til að bregðast við samdrætti eða áföllum.

Fjármálastefnan gerir ráð fyrir að afkoma ríkis og sveitarfélaga skili góðum afgangi yfir allt tímabil stefnunnar þótt lítillega dragi úr honum er á líður. Til tvenns er að líta í því sambandi: Annars vegar gera efnahagsspár ráð fyrir heldur dvínandi hagvexti þegar litið er til næstu ára og horfur eru um margt tvísýnni en áður, einkum þegar líður á áætlunartímabilið. Hins vegar endurspeglar markmiðssetningin breyttar áherslur nýrrar ríkisstjórnar, sem fram koma í stjórnarsáttmála hennar.

Meðferð málsins samkvæmt lögum um opinber fjármál gerir ráð fyrir að
fjármálaráð leggi mat á hvort fjármálastefnan fylgi þeim grunngildum og tölusettu fjármálareglum sem kveðið er á um í lögum opinber fjármál. Ráðið hefur tvær vikur eftir framlagningu til að ljúka umsögn sinni um stefnuna og skila til Alþingis.

Tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022

Ferill málsins á Alþingi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira