Hoppa yfir valmynd
14. desember 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Frumvörp um notendastýrða persónulega aðstoð samþykkt í ríkisstjórn

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, mun á næstu dögum leggja fyrir Alþingi frumvörp um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) við fatlað fólk. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu hans þessa efnis á fundi sínum í gær.

Ásmundur Einar Daðason„Það hefur sýnt sig að þeir sem fá notið þessarar þjónustu öðlast nánast nýtt líf, aukið frelsi og miklu betri möguleika til að ráða lífi sínu og taka fullan þátt í samfélaginu. Það er brýnt að þetta mál geti unnist sem hraðast og í góðu samstarfi við helstu hagsmunaaðila og þvert á stjórnmálaflokka“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Annars vegar mun ráðherra leggja fram frumvarp til nýrra heildarlaga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þessi frumvörp voru lögð fram á síðasta þingi og verða því endurflutt. Gert er ráð fyrir að lögfesting NPA á grundvelli þessara frumvarpa geti tekið gildi um mitt næsta ár. Fram að þeim tíma verður NPA – þjónustan tryggð með framlengingu bráðabirgðaákvæða laga þar að lútandi frá 1. janúar næstkomandi. Í því skyni leggur ráðherra því einnig fram frumvarp til breytinga á lögum um málefni fatlaðs fólks og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Auknir fjármunir og fjölgun samninga á næsta ári

Í frumvarpi til fjárlaga næsta ár er gert ráð fyrir tæplega 290 milljóna króna fjárheimild til samninga um notendastýrða persónulega aðstoð. Aukningin nemur samkvæmt því um 70 milljónum króna frá þessu ári og gerir kleift að fjölga samningum úr 55 í 80 árið 2018.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum