Hoppa yfir valmynd
15. desember 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Náms- og starfsráðgjöf mikilvæg í framhaldsfræðslu

Lokaráðstefna Evrópuverkefnisins „Ráðgjöf og leiðsögn fyrir fullorðna“ (Guidance and Orientation for Adult Learners ― GOAL) fór fram þann 14. desember síðastliðinn. Í verkefninu var unnið að því að undirbúa og framkvæma stefnumótandi tilraun þar sem náms- og starfsráðgjöf fyrir fólk sem sækir síður en aðrir í nám, var þróuð og árangur af henni metinn. Sérstök áhersla var lögð á samstarf þjónustuaðila og tilvísanir inn í ráðgjöf um nám, hjá símenntunarmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu (Mímir) og á Suðurnesjum (MSS).

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði ráðstefnugesti og sagði meðal annars: „Breytingar á vinnumarkaði og þróun síðustu ára hefur gert það að verkum að fullorðið fólk – sem hyggst hefja nám að nýju – stendur frammi fyrir mun fjölbreyttara vali um nám og störf en áður. Náms- og starfsráðgjöf gegnir lykilhlutverki í þessum breyttu aðstæðum þar sem mikilvægt er að taka vel ígrundaðar ákvarðanir og fyrir fólk á vinnumarkaði að geta leitað að upplýsingum um nám og störf hvar og hvenær sem er.“

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins stýrir verkefninu í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Samstarfsaðilar eru Menntavísindastofnun, Mímir og Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum.

Verkefnið er styrkt af Erasmus+ áætluninni en flokkurinn sem verkefnið heyrir undir miðar að því að styrkja verkefni þar sem þróaðar eru nýjungar í menntamálum í alþjóðlegu samstarfi og er ætlað að hafa stefnumótandi áhrif.

Nánar má lesa um verkefnið á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum