Hoppa yfir valmynd
18. desember 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjármögnun aðgerðaáætlunar um máltækni tryggð

Fjórða iðnbyltingin er ekki lengur handan við hornið, hún er þegar hafin. Í ljósi þeirra miklu breytinga sem hún hefur í för með sér, þróunar stafrænnar tækni og áhrif hennar á allt okkar umhverfi er grundvallaratriði að lítið málsamfélag eins og Ísland sé þátttakandi í tæknibyltingunni, ekki áhorfandi.

Í júní síðastliðnum var sett fram aðgerðaáætlun um máltækni fyrir íslensku á árunum 2018-2022. Markmið hennar er að hægt verði að nota íslensku í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kom fram að aðgerðaáætlunin yrði fjármögnuð að fullu á kjörtímabilinu. Í frumvarpi til fjárlaga 2018 hafa framlög til verkefnisins verið hækkuð um 450 milljón króna frá frumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar og því ljóst að fyrsta skref er tekið í áttina að því að íslenskan verði hluti af stafrænum heimi framtíðarinnar.

Lögð er áhersla á þrjá meginþætti í verkefninu:

  • Uppbyggingu innviða, þ.e.a.s gagnasafna um tungumálið, s.s. stór textasöfn, hljóðupptökur og orðasöfn
  • Nýsköpun í máltækni - nýjar lausnir á þörfum samfélagsins í máltækni og nauðsynleg verkfæri í samstarfi við sprotafyrirtæki
  • Samstarf og klasamyndun - alþjóðlegt samstarf, einnig við stofnanir og háskóla

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði: „Aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir framlagi margra aðila til verkefnisins, ekki einungis hins opinbera heldur einnig atvinnulífs, stofnana og háskóla og það er ljóst að samstarf þessara aðila skiptir sköpum í verkefni sem þessu. Þá er einnig mikilvægt að lausnirnar verði gagnlegar og notaðar af almenningi, stofnunum og fyrirtækjum á Íslandi. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hina miklu samstöðu sem ríkir um máltækniáætlunina og með fjármögnun aðgerðaáætlunarinnar leggur ríkisstjórnin sín lóð á vogarskálarnar með afgerandi hætti.“


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum