Hoppa yfir valmynd
22. desember 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Viðhorfsvakning og áskorun kvenna í menntageiranum

 Lilja Alfreðsdóttir - mynd

Á Íslandi, líkt og víða annars staðar í heiminum, á sér stað mikil vakning um hverskonar kynbundið ofbeldi og áreitni undir myllumerkinu #églíka. Konur í mörgum starfsstéttum samfélagsins hafa stigið fram, deilt sögum og sent frá sér yfirlýsingar.
Í kjölfar yfirlýsingar kvenna innan menntageirans vill Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, koma eftirfarandi á framfæri.

Mennta- og menningarmálaráðherra tekur heilshugar undir það að konur, hvar sem þær starfa, eigi að geta unnið sína vinnu án áreitni, ofbeldis og mismununar. Í yfirlýsingunni er þess krafist að settir verði upp skýrir verkferlar hjá menntastofnunum til að takast á við kynbundna áreitni og að boðið verði upp á fræðslu fyrir starfsfólk og stjórnendur um birtingarmyndir hennar. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur sent fyrirspurn til stofnana ráðuneytisins um hvort þar hafi verið gert áhættumat og gefin út skrifleg viðbragðsáætlun í samræmi við reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í jafnréttisáætlunum er gerð grein fyrir sérstökum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum. Stjórnendur menntastofnana eru hvattir til að fara yfir verkferla og gera áætlun um úrbætur fyrir starfsfólk og nemendur í skólum landsins. Þeir eru beðnir um að koma því skýrt á framfæri að kynferðisleg áreitni, ofbeldi og mismunun verði ekki liðin og að stjórnendur muni bregðast af festu við þeim málum sem upp kunni að koma.

Mennta- og menningarmálaráðherra tekur undir kröfur kvenna innan menntageirans um fræðslu fyrir starfsfólk og stjórnendur um birtingamyndir kynferðislegrar áreitni og kynbundinnar mismununar. Hún leggur áherslu á að fræðslan nái einnig til nemenda sem tryggja þurfi viðunandi úrræði og stuðning verði þeir fyrir hvers kyns mismunun. Áhersla verður lögð á að fyrirhuguð rannsókn á vegum félags- og jafnréttismálaráðuneytis til að meta umfang kynferðislegrar áreitni og ofbeldis, kynbundinnar mismununar og eineltis á vinnumarkaði nái einnig til menntastofnana.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum