Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Listamenn heiðraðir með afhendingu Menningarviðurkenninga Ríkisútvarpsins

Menningarviðurkenningar Ríkisútvarpsins voru veittar við hátíðlega athöfn þann 4. janúar síðastliðinn, auk þess sem val á orði ársins 2017 var tilkynnt.

Menningarsjóðir á vegum RÚV hafa verið starfræktir í fjölda ára, þeir elstu í yfir 60 ár. Markmiðið með sjóðunum er að stuðla að eflingu menningarlífsins í landinu með fjárframlögum til listamanna.

Í ávarpi sínu varð Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, m.a. rætt um mikilvægi íslenskrar tungu fyrir menningar- og listalíf okkar Íslendinga og fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að styrkja stöðu tungumálsins.
„Þótt efnistök og umfjöllunarefni bókmennta séu af ýmsu tagi er tungumálið í senn efniviður þeirra og verkfæri. Það er því mikilvægt að hlúa að rekstrarumhverfi bókaútgefanda og tryggja þeim samkeppnishæf rekstrarskilyrði. Ég hef haft miklar áhyggjur af samdrætti í bóksölu, minnkandi lestri og áhrifum þess á tungumálið okkar. Á kjörtímabilinu munum við ráðast í aðgerðir til þess að sporna gegn þessari þróun og snúa vörn í sókn fyrir umhverfi bókmennta á Íslandi,“ sagði Lilja.

Rithöfundasjóður RÚV hefur verið starfræktur síðan 1956 og að þessu sinni hlaut Hallgrímur Helgason viðurkenningu sjóðsins. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars: „Íslenskum bókaunnendum varð snemma ljóst að þar fór höfundur sem vildi ekki aðeins skrifa sig inn í íslenska bókmenntasögu sem ungur og metnaðarfullur höfundur, heldur líka gera það með nýjum hætti og vera öðruvísi en hinir sem þá þegar voru orðnir þekktir af verkum sínum.“

Á liðnu ári var Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins breytt í Tónskáldasjóð RÚV og STEFs. Hinn nýi sjóður leysti tvo eldri sjóði af hólmi; Tónskáldasjóð RÚV sem verið hafði í vörslu Ríkisútvarpsins og starfræktur í meira en 60 ár og Tónskáldasjóð Rásar 2 sem verið hafði í vörslu STEFs. Sjóðurinn úthlutar þrisvar á ári og fengu 92 aðilar styrk úr sjóðnum á síðasta ári.

Þá veitti Rás 2 Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning, en þau voru fyrst veitt árið 2014. Krókinn fyrir árið 2017 hlaut hljómsveitin Mammút.

RÚV, Stofnun Árna Magnússonar og Mímir, félag íslenskunema við Háskóla Íslands hafa síðan 2016 staðið saman að því að leyfa landsmönnum að velja orð ársins í gegnum netkosningu. Orðið sem varð fyrir valinu árið 2017 var orðið epalhommi.

Um söguna á bak við orð ársins, yfirlit yfir styrkþega Tónskáldasjóðs og aðrar upplýsingar um menningarviðurkenningarnar má lesa nánar á vef RÚV.


  •   - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum