Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sundfólk framtíðarinnar

Mikil stemning ríkti á Nýárssundmóti Íþróttasambands fatlaðra sem fór fram um helgina. Mótið er fyrir iðkendur 17 ára og yngri en að þessu sinni tóku tæplega 70 keppendur þátt.

Stigagjöf ræður úrslitum en að auki fá öll börn viðurkenningar fyrir þátttöku í 25 metra greinum. Sigurveigari mótsins er sá sundmaður sem vinnur besta afrek mótsins samkvæmt stigagjöf og hlýtur að launum sjómannabikarinn. Bikarinn er farandbikar sem var gefinn af Sigmari Ólasyni, sjómanni á Reyðarfirði, árið 1984.

Róbert Ísak Jónsson, sundmaður úr Íþróttafélaginu Firði og heimsmeistari í 200 metra fjórsundi, varð hlutskarpastur að þessu sinni en hann er 21. sundmaðurinn sem hreppir gripinn. Þetta er þriðja árið í röð sem hann ber sigur úr býtum en hann hlaut 735 stig fyrir árangur sinn í 50 metra flugsundi. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var heiðursgestur mótsins. Dagskrá mótsins var fjölbreytt, skólahljómsveit Kópavogs spilaði undir þegar keppendur gengu inn og skátar stóðu heiðursvörð.

,,Það er virkilega ánægjulegt að fylgjast með því öfluga íþróttastarfi sem fram fer hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Ég er glöð að sjá hversu vel er staðið að málum á Nýárssundmótinu, þar sem öllum fötluðum börnum er gefinn kostur á þátttöku. Það er í senn mikilvægt og bráðnauðsynlegt að íþróttir séu aðgengilegar fyrir alla óháð aðstæðum. Ég óska Róberti Ísaki og keppendunum innilega til hamingju með árangurinn. Framtíðin er svo sannarlega björt,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

  •   - mynd
  •   - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum