Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Ný reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett nýja reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja. Með henni er lögð áhersla á rafrænt umhverfi lyfjaávísana. Meðal nýmæla er ákvæði um hertar reglur um ávísanir til að sporna við misnotkun tiltekinna ávanabindandi lyfja. Reglugerðin tekur gildi 3. apríl.

Í VIII. kafla reglugerðarinnar er fjallað um rafrænt umhverfi lyfjaávísana, lyfjaávísanagátt Embættis landlæknis, eyðingu upplýsinga og kröfur til sjúkraskrárkerfa sem útgefendur nota til að senda rafrænar lyfjaávísanir. Embætti landlæknis hefur eftirlit með að útgáfa lyfjaávísana, notkun lyfjaávísanagáttar og virkni sjúkraskrárkerfa sé í samræmi við ákvæði hinnar nýju reglugerðar.

Spornað við misnotkun amfetamíns og metýlfenidats

Til að sporna við misnotkun lyfja er í reglugerðinni kveðið á um að vegna ávísunar lyfja í ATC-flokki N06BA01 (amfetamíns) og N06BA04 (metýlfenídats) skuli liggja fyrir lyfjaskírteini fyrir viðkomandi sjúkling hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Í reglugerðinni eru ákveðin nýmæli tengd sérákvæðum sem varða lyfjaávísanir og afhendingu lyfja vegna dýra. Eftirlit með lyfjanotkun og lyfjaafhendingum dýralækna er á hendi Matvælastofnunar.

Reglugerðin mun leysa af hólmi reglugerðir nr. 421/2017, um gerð lyfseðla og ávísun lyfja, og nr. 422/2017, um afgreiðslu lyfseðla, áritun og afhendingu lyfja. Talið var hæfilegt að birta reglugerðina þremur mánuðum fyrir gildistöku hennar til að gefa þeim sem starfa eftir henni kost á að aðlaga sig breyttu rafrænu umhverfi sem reglugerðin hefur í för með sér. Sem fyrr segir tekur hún gildi 3. apríl næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira