Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið

Ráðherra heimsótti Barnaverndarstofu

Heimsókn ráðherra á Barnaverndarstofu - myndVelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra heimsótti í gær Barnaverndarstofu og fékk kynningu á starfsemi hennar hjá Braga Guðbrandssyni forstjóra stofunnar og sérfræðingum hennar.

Meðal þess sem fjallað var um á fundinum var stjórnsýsla barnaverndarmála, helstu úrræði í málaflokkinum auk þess sem rakin var í grófum dráttum saga Barnaverndarstofu frá stofnun hennar árið 1995.

Ásmundur Einar sagði áhugavert fyrir sig að kynna sér þessa starfsemi, ekki síst þar sem hann muni í embætti sínu sem ráðherra leggja mikla áherslu á málefni barna, ekki aðeins þau mál sem heyra undir Barnaverndarstofu, heldur málefni barna í víðu samhengi og bættar aðstæður barna sem þurfa stuðning. Hann ræddi sérstaklega um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og stuðning við barnafjölskyldur.

Með ráðherra í heimsókninni voru Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri og Guðríður Bolladóttir lögfræðingur í velferðarráðuneytinu.

Í lok fundarins færði Bragi ráðherra að gjöf áritað eintak af bókinni Collaborating Against Child Abuse: Exploring the Nordic Barnahus Model sem kom út í október á liðnu ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira