Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kennsluþróun og rannsóknir í forgrunni

Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra - mynd

Rektor Háskólans á Akureyri kynnti starfsemi og stefnu skólans fyrir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á fundi þeirra í ráðuneytinu í dag.

Háskólinn á Akureyri (HA) var stofnaður árið 1987 og fagnaði því 30 ára afmæli sínu á síðasta ári. Við HA eru starfrækt þrjú fræðasvið: Heilbrigðisvísindasvið, Hug- og félagsvísindasvið, og Viðskipta- og raunvísindasvið. Á þessum þremur sviðum er boðið uppá 23 námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi.

Meginmarkmið stefnu Háskólans á Akureyri 2018–2023 eru að efla núverandi námsumhverfi, styrkja innviði skólans og auka vægi rannsókna. Doktorsnám verður drifkraftur öflugs rannsóknastarfs á sérsviðum skólans sem stundað er í beinum tengslum við samfélagið. Jafnframt er það markmið skólans að verða kolefnishlutlaus og til fyrirmyndar í umhverfismálum á alþjóðlega vísu.
Skólinn hefur skapað sér sérstöðu sem miðstöð kennslu og rannsókna á fræðasviðum tengdum norðurslóðum í samstarfi við ýmsar stofnanir á þeim vettvangi sem hýstar eru á Akureyri.
Allt nám við HA er skilgreint sem sveigjanlegt nám og því ekki gerður greinarmunur á hefðbundnu staðar og fjarnámi. Mikil vinna við kennsluþróun og uppbygging á fjarkennslubúnaði hefur átt sér stað við skólann á undanförnum árum vegna þessa.

Haustið 2017 voru 2074 nemendur skráðir við HA, og hafa aldrei verið fleiri nemendur skráðir við skólann.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð mikil áhersla á að efla háskólastigið og að fjármögnun þess nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og Norðurlandanna árið 2025 í samræmi við áætlanir Vísinda- og tækniráðs. „Mikilvægt skref er stigið í fjárlögum ársins 2018 þar sem framlög til háskólastigsins eru aukin um tæpa 2,9 milljarða eða 6,9% miðað við fjárlög 2017. Með þessari hækkun er ætlunin að efla bæði kennslu og rannsóknir svo bæta megi þjónustu við nemendur og styrkja alþjóðlegt samstarf,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum