Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Einhuga um að vinna saman gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni

Mennta- og menningarmálaráðherra boðaði til fundar í morgun með fulltrúum kvenna í íþróttahreyfingunni sem komið hafa fram undir merkjum #Églíka, forseta Íþróttasambands Íslands og framkvæmdastjóra UMFÍ. Rætt var um mögulegar aðgerðir til að koma í veg fyrir kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti.

Íþróttakonur á Íslandi sendu frá sér yfirlýsingu í gær í tengslum við #Églíka umræðuna. Yfirlýsingunni fylgdi undirskriftalisti og nafnlausar reynslusögur. Undir yfirlýsinguna skrifa 462 íþróttakonur úr mörgum íþróttagreinum. Í kjölfar viðtals við Hafdísi Ingu Hinriksdóttur, Nínu Björnsdóttur og Önnu Soffíu Víkingsdóttur í Kastljósi í gærkvöld hafði mennta- og menningarmálaráðherra samband við þær og óskaði eftir fundi. Auk forsvarskvennanna voru á fundinum Lárus Blöndal forseti ÍSÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ.

Á fundinum var rætt um aðgerðir til að koma í veg fyrir kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti. Ráðherra ákvað að stofna starfshóp sem ætlað er að vinna hratt og örugglega að útfærslu á aðgerðum og framkvæmd þeirra þannig að raunverulegur árangur náist. Í starfshópnum verða fulltúar þeirra sem á fundinum voru ásamt sérfræðingum í ráðuneytinu sem undanfarið hafa unnið að undirbúningi aðgerða í samstarfi við þrjú önnur ráðuneyti. Starfshópurinn mun fjalla um aðgerðir sem varða lagabreytingar, fræðslu, viðbragðsáætlanir og eftirfylgni ásamt því að samræma verklag og fræðslu innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra sagði; „Ég er mjög þakklát konunum sem hafa verið að stíga fram. Ég er sannfærð um að þetta framtak muni skila sér og leiða til varanlegra breytinga. Ég hef óskað eftir því að starfshópurinn skili af sér tillögum í mars. Það gleður mig að forysta ÍSÍ og UMFÍ komi strax að borðinu og vinni með okkur í því að uppræta þessa meinsemd og bæta umhverfi íþróttaiðkunar á Íslandi.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum