Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Leiðbeinandi reglur ESA um ríkisastoð aðgengilegar á íslensku

Á dögunum var birt íslensk þýðing á leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um hugtakið ríkisaðstoð eins og það er notað í 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins.

Leiðbeinandi reglurnar hafa það hlutverk að hjálpa stjórnvöldum og fyrirtækjum að greina hvenær opinber stuðningur getur verið veittur án þess að hann feli í sér ríkisaðstoð. Aðalmarkmiðið með reglunum er að stuðla að réttarvissu og gera ESA unnt að leggja áherslu á mál sem hafa mestu áhrifin á samkeppni. Auk þess að veita skýringar, sem eru sérstaklega gagnlegar fyrir opinbera aðila, gefa reglurnar almennar leiðbeiningar um allar hliðar ríkisaðstoðarhugtaksins.

Leiðbeinandi reglurnar skýra einstaka þætti hugtaksins ríkisaðstoð, þ.e. skilyrðin um efnahagslega starfsemi, uppruna (opinberrar) fjármögnunar, ávinning aðstoðarþega, hvenær ávinningur telst sérstækur og hvernig meta skuli áhrif á samkeppni og á viðskipti milli EES-ríkja.

Dæmi um skýringar:

  • Efnahagsleg starfsemi: almannatryggingakerfi, opinber sjúkrahús, opinber menntun, menningarstarf og náttúruvernd, sem veitt er almenningi án endurgjalds, fela að meginreglu til ekki í sér efnahagslega starfsemi.
  • Samspil ríkisaðstoðar og reglna um opinber innkaup: þegar stjórnvöld kaupa eða selja eignir, vörur eða þjónustu í samræmi við EES-reglur um opinber innkaup, má ganga út frá því að ekki sé um ríkisaðstoð að ræða.
  • Skattaráðstafanir: unnt er að setja löggjöf til að hrinda í framkvæmd efnahagsstefnu stjórnvalda, svo lengi sem slík löggjöf felur ekki í sér ósamrýmanlega ríkisaðstoð eða mismunar rekstraraðilum í sambærilegri stöðu.
  • Fjárfesting í grunnvirkjum: opinber fjármögnun grunnvirkja (stundum nefnt innviðir) sem ekki er ætlunin að nýta í viðskiptalegum tilgangi felur að meginreglu til ekki í sér ríkisaðstoð. Þar að auki felur opinber fjármögnun vegna uppbyggingar eða uppfærslu grunnvirkja, ekki í sér ríkisaðstoð ef ekki er um samkeppni við aðra innviði af sama tagi . Jafnvel þótt grunnvirki sem nýtt eru í viðskiptalegum tilgangi séu byggð upp með ríkisaðstoð, er engin aðstoð til rekstraraðila og notenda ef þeir greiða markaðsverð fyrir aðganginn.
  • Opinber fjármögnun menningarstarfsemi: sé slík starfsemi ekki viðskiptalegs eðlis og veitt án endurgjalds eða gegn litlu gjaldi, fellur hún ekki undir reglur um ríkisaðstoð.
    Dæmi: Sem hluti af menningarstefnu lands er almenningi tryggt aðgengi að listum, leikhúsi og klassískri tónlist. Sum söfn, leikhús og tónlistarhús selja inngangsmiða á lágu verði og hafa ekki nægar tekjur af miðasölu til að standa straum af kostnaði við reksturinn. Hið opinbera veitir slíkum menningarstofnunum fjármagn til að jafnvægi sé í fjármálum þeirra. Slíkur opinber stuðningur er almennt ekki háður eftirliti með ríkisaðstoð af hálfu ESA.

Dæmi

Ráðist er í gerð vegganga sem að stórum hluta eða öllu leyti eru fjármögnuð af ríkinu. Markmið framkvæmdarinnar eru ekki viðskiptalegs eðlis. Engin bein samkeppni við einkaaðila er til staðar vegna samgangna milli þeirra byggðarlaga sem veggöngin tengja og göngin gagnast ekki tilteknum fyrirtækjum umfram önnur í sömu eða sambærilegri stöðu. Ólíklegt er að um ríkisaðstoð sé að ræða, til rekstraraðila eða notenda.

Reglurnar voru gefnar út á ensku fyrir í byrjun árs 2017.Sjá nánar frétt á vef stofnunarinnar

Leiðbeinandi reglur ESA svara til auglýsingar framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins frá 19. maí 2016 um hugtakið „ríkisaðstoð“ eins og það er notað í 1. mgr. 107. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira