Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið

Vel heppnuð kynning á þróunarsjóði innflytjendamála

Frá kynningarfundi um þróunarsjóð innflytjendamála - myndVelferðarráðuneytið

Um fjörutíu manns sóttu opinn fund innflytjendaráðs fyrir helgi þar sem fjallað var um ferli umsókna eftir styrkjum úr þróunarsjóði innflytjendamála, reglur sjóðsins og áherslur stjórnvalda við val á verkefnum að þessu sinni. Frestur til að sækja um styrki úr sjóðnum rennur út 31. janúar.

Úthlutað er árlega úr þróunarsjóði innflytjendamála og fyrir hverja úthlutun draga stjórnvöld fram ákveðna þætti sem þau vilja leggja áherslu á við val á verkefnum sem hljóta styrki það árið. Að loknu opnunarávarpi Tatjönu Latinovic, formanns inflytjendaráðs flutti Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, ávarp þar sem hann kynnti áherslur stjórnvalda vegna styrkveitinga árið 2018. Í ávarpi sínu ræddi hann sérstaklega um stöðu barna og  barnafjölskyldna og mikilvægi þess að hlúa vel að þeim samhliða því að byggja upp sterkar stoðir sem stuðla að því að allar kynslóðir innflytjenda geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu.

Við ákvörðun um styrkveitingar að þessu sinni verður lögð áhersla á eftirfarandi:

  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem tengjast börnum og ungmennum af erlendum uppruna.
  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem falla vel að áherslum þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019 sem samþykkt var á Alþingi 20. september 2016.
  • Rannsóknar- og þróunarverkefni sem stuðla að virkri þátttöku innflytjenda í samfélaginu og auka sýnileika þeirra.

Samtök um móðurmál kynntu á fundinum verkefni þeirra sem hlaut styrk úr þróunarsjóðnum árið 2016 og Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, starfsmaður innflytjendaráðs fjallaði um reglur þróunarsjóðsins og umsóknarferlið. Glærur frá kynningu Hilmu eru aðgengilegar hér að neðan.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira