Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Áskoranir í menntamálum

Áskoranir í menntamálum voru meðal þess sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík ræddu á fundi sínum í liðinni viku.

Ari Kristinn, sem er doktor í tölvunarfræði frá Stanford háskóla, hefur skrifað og flutt fyrirlestra um áhrif tækninnar á menntun í nútíð og framtíð. Málefni fjórðu iðnbyltingarinnar voru því ofarlega á baugi á fundinum.

Mennta- og menningarmálaráðherra sagði: „Háskólarnir okkar eru mjög meðvitaðir um þær áskoranir en jafnframt þau tækifæri sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Ég er virkilega ánægð með þá sýn sem að Háskólinn í Reykjavík hefur á framtíðina. Skólinn býður upp á metnaðarfullt verk- og tækninám. Menntun og rannsóknir eru grunnurinn að því að byggja upp samkeppnishæft hagkerfi og auka verðmætasköpun þjóðarbúsins. Háskólarnir gegna lykilhlutverki í þeirri vegferð. “

Við Háskólann í Reykjavík (HR) eru starfræktar fjórar deildir á háskólastigi: lagadeild, tölvunarfræðideild, tækni- og verkfræðideild, og viðskiptafræðideild, auk frumgreinadeildar er býður eins árs frumgreinanám sem undirbúning fyrir háskólanám. Þá býður Opni háskólinn í HR upp endurmenntunarnámskeið. Kennsla og rannsóknir við HR eru í sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag með áherslu á þverfagleika og nýsköpun. HR er einkarekinn háskóli í formi hlutafélags og er að mestu í eigu Menntasjóðs viðskiptaráðs Íslands (64%) en að auki eiga Samtök iðnaðarins (24%) og Samtök atvinnulífsins (12%) hluti í skólanum.
Við skólann starfa 124 fastráðnir akademískir starfsmenn og 306 lausráðnir starfsmenn, enda sækir skólinn í miklum mæli sérfræðiþekkingu til kennslu úr atvinnulífinu. Á almanaksárinu 2016 stunduðu 3344 nemendur nám við HR.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum