Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2018

Doktorsnemi - Háskóli Íslands, Menntavísindasvið - Reykjavík - 201801/135

 

Doktorsnemi á sviði menntunarfræða og margbreytileika 

Doktorsnemi við Menntavísindasvið 
Laus er til umsóknar staða fyrir doktorsnema á sviði menntunarfræða og margbreytileika. Um er að ræða vinnu við verkefnið „Margbreytileiki og menningarmunur – Kennslufræðilegar lausnir: Skóli án aðgreiningar í finnskum, íslenskum og hollenskum grunnskólum“ (e. Mixed classes And Pedagogical Solutions (MAPS): Inclusive education in diverse environments of Finland, Iceland and the Netherlands). Doktorsverkefnið er styrkt af NordForsk til tveggja ára en gert er ráð fyrir að sótt verði um aðra styrki fyrir þriðja og síðasta ári doktorsnámsins. 

Lýsing á verkefninu
Nemandinn mun vinna undir leiðsögn dr. Berglindar Rósar Magnúsdóttur dósents við uppeldis- og menntunarfræðideild á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Frekari upplýsingar um verkefnið má nálgast undir vefslóðinni https://www.nordforsk.org/en/programmes-and-projects/programmes/education-for-tomorrow-1/mixed-classes-and-pedagogical-solutions-maps. Rannsóknir doktorsnemans munu beinast að þeim hluta rannsóknar sem varðar etnógrafískar vettvangsathuganir í skólasamfélagi með tiltekna stétta- og menningarblöndun (samræmt milli landa). Rannsóknin beinist að yngri stigum grunnskólans. Skyldur doktorsnemans felast í gagnasöfnun á vettvangi skólans, skráningu og greiningu gagna og fræðilegum skrifum ásamt leiðbeinanda og öðrum sem tengjast verkefninu. Einnig er gert ráð fyrir að doktorsnemi komi að öflun frekari styrkja vegna rannsóknarinnar. Þótt doktorsnemi gangi inn í áður mótaðar rannsóknarspurningar býður verkefnið engu að síður upp á sveigjanleika og frekari afmörkun á rannsóknarspurningum. Gert er ráð fyrir miklu frumkvæði frá nemanda í mótun rannsóknarverkefnis síns. 

Hæfnikröfur
Umsækjendur þurfa að hafa meistarapróf á sviði félags- og/eða menntavísinda. Æskilegt er að nemendur hafi menntun á sviðum er varða félagslegt réttlæti í skólastarfi, s.s. á samverkandi áhrifum stéttar, uppruna, fötlunar og/eða kynferðis á náms- og félagslega þætti í skólastarfi (e. intersectional approach). Reynsla af kennslu og/eða öðrum fagstörfum í grunnskólum er æskileg. Umsækjandi verður að hafa góð tök á íslensku og ensku, bæði töluðu og rituðu máli, hafa góða samskiptahæfni og geta unnið sjálfstætt. Krafa er um að doktorsneminn hafi yfirgripsmikla aðferðafræðilega þekkingu (sérstaklega í eigindlegum rannsóknaraðferðum), áhuga á samanburðarrannsóknum og etnógrafískri rannsóknarnálgun í menntunarfræðum.  

Umsóknarferli
Vinsamlega skilið inn eftirfarandi gögnum með umsókninni: 
•Greinargerð þar sem umsækjandi lýsir hvernig hann uppfyllir skilyrði stöðunnar, hvers vegna hann hefur áhuga á að vinna þetta verkefni og hugmyndir umsækjanda um sitt framlag til verkefnisins (hámark 2 síður) 
•Ferilskrá (CV) 
•Prófskírteini 
•Nöfn tveggja meðmælenda (nafn, tengsl við umsækjenda, tölvupóstfang og símanúmer) 

Umsóknarfrestur er til 12. febrúar. Umsókn skal sendast inn rafrænt á heimasíðu Háskóla Íslands undir laus störf

Gert er ráð fyrir að umsækjandi geti hafið störf við verkefnið 1. mars 2018. Í framhaldi af ákvörðun um ráðningu þarf umsækjandi að sækja formlega um doktorsnám við Háskóla Íslands. 

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðuneytis og hlutaðeigandi stéttarfélags. 

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests. 

Frekari upplýsinga skal leita hjá Berglindi Rós Magnúsdóttur ([email protected]) stjórnanda íslenska hluta verkefnisins eða Láru Rúnar Sigurvinsdóttur ([email protected]) mannauðsstjóra menntavísindasviðs.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.  

Á Menntavísindasviði fer fram rannsóknartengt starfsnám fyrir kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, uppeldis- og menntunarfræðinga, íþrótta- og heilsufræðinga, tómstunda- og félagsmálafræðinga og þroskaþjálfa. Lögð er áhersla á rannsóknir og þróunarstarf sem unnið er í samstarfi við starfsvettvang. 
Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 300 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.

 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum