Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2018 Forsætisráðuneytið

Fyrsti fundur ráðherranefndar um jafnréttismál

Fyrsti fundur ráðherranefndar um jafnréttismál - mynd
Fyrsti fundur ráðherranefndar um jafnréttismál var haldinn í forsætisráðuneytinu í morgun.

Ráðherranefnd um jafnréttismál var skipuð af ríkisstjórninni á fundi hennar 5. desember s.l. í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að Ísland verði sterk rödd á alþjóðavettvangi með því að leggja áherslu á og vera fyrirmynd í jafnréttismálum. Hlutverk ráðherranefndar um jafnréttismál er að samhæfa störf ráðherra og ríkisstjórna á sviði jafnréttismála. Forsætisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra eiga fast sæti í nefndinni en aðrir ráðherrar sitja fundi nefndarinnar eftir þörfum.

Á fundinum var ákveðið að skipa samráðshóp um heildstæðar úrbætur er varðar kynferðislegt ofbeldi, en hópnum verður m.a. falið að fylgja eftir nýrri aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Þá var farið yfir lög um jafnlaunavottun, sem kveða á um að fyrirtæki og stofnanir þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skuli öðlast jafnlaunavottun. Loks var fjallað um víðtækar og samræmdar aðgerðir til að taka á kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði og meðal félagasamtaka hér á landi.

Ráðherranefndin mun funda reglulega á næstunni og taka til umfjöllunar mál sem eru brýn til þess að tryggja framgöngu jafnréttismála hér á landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum