Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Starfshópur um kjararáð með fulltrúum vinnumarkaðarins og ríkisins skipaður og skal vinna hratt að tillögum um úrbætur

Ríkisstjórnin hefur, að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, ákveðið að skipa starfshóp um kjararáð. Hópurinn skal bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs, sé annað fyrirkomulag talið líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar.

Þá skal starfshópurinn taka til skoðunar úrskurði kjararáðs, meta með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem samningsfrelsis njóta og þeirri launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks og eftir atvikum leggja fram tillögur um úrbætur.

Formaður hópsins er Jóhannes Karl Sveinsson hrl. Auk hans sitja í hópnum fyrir hönd ríkisins Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu. Fyrir hönd aðila vinnumarkaðarins sitja þau Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Helga Jónsdóttir framkvæmdastjóri BSRB og Magnús Norðdahl lögfræðingur ASÍ.

Starfshópurinn skal ljúka störfum eigi síðar en 10. febrúar nk.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira