Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Styrkja verður stöðu íslenskunnar

Ingvar Gíslason fyrrum menntamálaráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens frá 1980 til 1983 heimsótti menntamálaráðuneytið á dögunum. 

Það var margt á döfinni í menntamálaráðuneytinu kjörtímabilið 1980-1983. Fyrst ber að nefna að  lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna var breytt þannig að námslánin skyldu vera 100% af framfærsluþörf námsmanna og lánstíminn lengdur. Samræmd löggjöf um framhaldsskóla var sett, sem var mikið framfaraskref er varðar framhaldsskólastigið. Staða íslenskrar málnefndar var styrkt og hún gerð að starfseiningu innan Háskóla Íslands. Lögum um útvarpsrekstur var breytt sem fólu í sér slökun á einkarétti Ríkisútvarpsins og hafist var handa við byggingu Útvarpshússins. Ýmsum framkvæmdum miðaði vel áfram um þessar mundir eins og byggingu Þjóðarbókhlöðunnar og húss Listasafns Íslands við Fríkirkjuveg ásamt skólabyggingum víða um land. Nefnd vann að gerð tillagna um eflingu Akureyrar sem skólabæjar með það fyrir augum að þar færi fram kennsla á háskólastigi. Einnig var unnið ötullega að leggja niður farskóla og var sú vinna kláruð að megninu til í tíð Ingvars.

,,Það er virkilega ánægjulegt en ekki síður fróðlegt að ræða við Ingvar Gíslason. Hann tók við sem menntamálaráðherra í þriggja flokka stjórn á krefjandi tímum í íslenskum stjórnmálum. Fram kom í máli Ingvars að mörgu leyti væru þær áskoranir sem við stæðum frammi fyrir í dag þær sömu og fyrir tæpum 40 árum. Miklar tækniframfarir voru í samfélaginu eins og í dag og viðfangsefnið hvernig menntakerfið ætti að nýta þær. Ég spurði Ingvar hvert hann teldi vera stærsta viðfangsefni menntamálayfirvalda í dag. Ingvar sagðist telja að mesta ógnin steðji að framtíð íslenskrar tungu og því þyrfti sérstaklega að huga að því að styrkja umhverfi hennar“, sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.        

Ingvar Gíslason var alþingismaður Norðurlands eystra 1961-1987 fyrir Framsóknarflokkinn og gegndi embætti menntamálaráðherra 1980-1983 í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Ingvar fæddist á Nesi í Norðfirði 28.mars 1926. Hann kláraði stúdentspróf frá MA 1947. Stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1947–1948 og í sagnfræði við háskólann í Leeds í Englandi 1948–1949. Lögfræðipróf HÍ 1956. Hdl. 1962.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira