Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Rætt um aðgerðir í kjölfar #Églíka yfirlýsingar kvenna í menntageiranum

Konur innan menntageirans birtu í desember síðastliðnum yfirlýsingu undir merki #Églíka (#Metoo). Yfirlýsingunni fylgdu undirskriftir 737 kvenna, auk fjölda frásagna.

Í yfirlýsingunni var þess óskað að settir yrðu upp skýrir verkferlar hjá menntastofnunum til að takast á við kynbundna áreitni og að boðið yrði upp á fræðslu fyrir starfsfólk og stjórnendur um birtingarmyndir hennar.

Í kjölfar yfirlýsingar kvennanna sendi mennta- og menningarmálaráðherra fyrirspurn til stofnana ráðuneytisins um aðgerðir þeirra til að sporna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Voru stofnanirnar beðnar um að gera grein fyrir stöðunni og hvernig úr henni verði bætt. Fjöldi svara hafa borist en samantekt verður unnin og niðurstöður greindar eftir að öll gögn hafa borist.

Til þess að fylgja málum eftir átti Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fund með kennurunum Eddu Garðarsdóttur og Erlu Gísladóttur, en þær eru fulltrúar kvennanna. Á fundinum lögðu fulltrúar kvenna í menntageiranum fram tillögur sem forsvarskonur yfirlýsingarinnar hafa tekið saman. Koma þar fram margvíslegar óskir og tillögur um aðgerðir sem geti bætt samfélag í skólum landsins.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði: ,,Ég er þakklát öllum þeim fjölda kvenna sem hafa stigið fram og sagt sögu sína. Ég er viss um að þessi bylting muni leiða til varanlegra breytinga. Hátterni sem þetta á hvergi að líðast í samfélaginu og því þarf að fylgja fast eftir.‘‘

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum