Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þekkingarsamfélag í nálægð við náttúruna

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu hefur verið starfræktur á Höfn í Hornafirði síðan 1987. Hlutverk skólans er fyrst og fremst að bjóða upp á almennt bóknám en auk þess er lögð áhersla á starfsnám og eru námsbrautir í fjallamennsku og vélstjórn á A-stigi í boði. Nemendafjöldi er mjög mismunandi eftir árum en í vetur stunda um 100 staðnemendur nám við skólann og 90 fjarnemendur.

Skólastarf og námið markast nokkuð af nágrenni við jökla og mikla og fallega náttúru. Hinn 11. janúar 2016 hlaut Framhaldsskólinn í Austur- Skaftafellssýslu Menntaverðlaun Suðurlands, en þau eru afhent fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi. Að þessu sinni hlaut FAS verðlaunin fyrir vöktunarverkefnin í náttúrufarsrannsóknum sem hafa verið unnar við skólann allt frá árinu 1990. Helstu verkefnin eru jöklamælingar, rannsóknir á gróðurframvindu á Skeiðarársandi, fuglatalningar í Óslandi og álftatalningar í Lóni.

Skólinn er í samstarfi við 12 aðra framhaldsskóla um fjarnám. Markmið fjarnámsins er fyrst og fremst að bæta aðgengi nemenda að eins fjölbreyttu námsframboði og kostur er og tryggja þeim sem bestan undirbúning undir frekara nám eða störf.

Á sama stað eru Nýheimar þekkingarsetur til húsa. Nýheimar eru samstarfsvettvangur ólíkra stofnana sem starfa á sviði menntunar, menningar, nýsköpunar og rannsókna á Suðausturlandi. Aðilar að setrinu eru: Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, Fræðsluskrifstofa Hornafjarðar, Háskólafélag Suðurlands, Matís, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Náttúrustofa Suðausturlands, Nýsköpunarmiðstöð, Ríki Vatnajökuls, Samband sunnlenskra sveitarfélaga, Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands, Vatnajökulsþjóðgarður og Vöruhúsið.
Tilgangur þekkingarsetursins er að efla samvinnu og skapa öflugt þekkingarsamfélag á landsbyggðinni, stuðla að jákvæðri byggðaþróun á Suðausturlandi og bæta lífsgæði á svæðinu. Þótt starfsemi þekkingarsetursins snúi fyrst og fremst að nærsamfélagi þess þá hefur það í auknum mæli leitað eftir samstarfi við hliðstæð þekkingarsamfélög annars staðar á landsbyggðinni og einnig erlendis. Þátttaka í margvíslegum samstarfsverkefnum er því umfangsmikill hluti starfsseminnar.

Í heimsókn sinni í dag í Framhaldsskólann og Nýheima sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ,,Ég er mjög hrifin af því hvernig starfsemi allra þessara aðila er samþætt undir einu þaki með það að markmiði að búa til öflugt þekkingarsamfélag í návist þeirrar fögru náttúru sem er hér allt í kring. Framhaldsskólar og þekkingarsetur víða um land gegna mikilvægu hlutverki fyrir nærsamfélög sín og gefa fólki möguleika á að stunda nám í sinni heimabyggð og efla þróun og rannsóknir á landsbyggðinni.‘‘

Ráðherra heimsótti einnig Vöruhúsið, en þar fer fram verkleg kennsla í grunn- og framhaldsskólanum. Þar er FabLab einnig til húsa þar sem fólk og fyrirtæki geta nýtt aðstöðuna til að þróa áfram hugmyndir og verkefni. Þegar að ráðherra bar að garði stóð yfir námskeið í rafmagnsfræði fyrir nemendur grunnskólans. ,,Það skiptir sköpum að bjóða upp á aðstöðu sem þessa til þess að styðja við nýsköpun og efla verk- og tækninám í landinu. Á sama tíma og rúmlega 40% útskrifast úr verknámi í Noregi er hlutfallið 12% hér heima. Skortur á verkmenntuðu fólki er tilfinnanlegur víða um land og við því þarf að bregðast,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
  • Þekkingarsamfélag í nálægð við náttúruna - mynd úr myndasafni númer 1
  • Þekkingarsamfélag í nálægð við náttúruna - mynd úr myndasafni númer 2
  • Þekkingarsamfélag í nálægð við náttúruna - mynd úr myndasafni númer 3
  • Þekkingarsamfélag í nálægð við náttúruna - mynd úr myndasafni númer 4
  • Þekkingarsamfélag í nálægð við náttúruna - mynd úr myndasafni númer 5

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum