Velferðarráðuneytið

Ársskýrsla innflytjendaráðs 2017

Innflytjendaráð hefur skilað félags- og jafnréttismálaráðherra skýrslu um störf sín árið 2017 í samræmi við lög um málefni innflytjenda.

Starfandi innflytjendaráð var skipað af þáverandi ráðherra, Þorsteini Víglundssyni þann 23. mars 2017 en samkvæmt lögunum skal skipa í ráðið eftir hverjar alþingiskosningar.

Innflytjendaráð hefur á starfstíma sínum haldið átta fundi, auk tveggja funda með helstu hagsmuna- og samstarfsaðilum sem haldnir voru til þess að kynna þróunarsjóð innflytjendamála og ræða um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Síðastliðið haust stóð innflytjendaráð fyrir samráðsfundi til að skapa samræðuvettvang þeirra sem tilgreindir eru sem framkvæmda- og samstarfsaðilar í aðgerðum sem kveðið er á um í framkvæmdaáætluninni. Auk umfjöllunar um aðgerðir áætlunarinnar voru á fundinum kynntar niðurstöður viðhorfskönnunar um innflytjendur sem gerð var í samræmi við áætlunina.

Í ársskýrslunni bendir innflytjendaráð á að auka þurfi upplýsingaflæði milli ráðuneyta, ríkisstofnana, sveitarstjórna og hagsmuna- og félagasamtaka við framkvæmd aðgerða í áætluninni og tryggja aðkomu þeirra að gerð tillagna að aðgerðum eins og  áætlunin kveður á um: „Jafnframt er mikilvægt að efla utanumhald um framvindu verkefna og taka reglulega stöðumat á aðgerðum. Framkvæmd aðgerðanna hefur seinkað, ekki síst vegna tíðra breytinga innan stjórnsýslunnar. Nauðsynlegt er að tryggja framkvæmd allra aðgerðanna með fullnægjandi fjármagni á fjárlögum og hefur Fjölmenningarsetur nú sent beiðni um upplýsingar um stöðu verkefna til allra ábyrgðaraðila aðgerða framkvæmdaáætlunarinnar“ segir meðal annars í skýrslu innflytjendaráðs.

Tatjana Latinovic hefur gegnt formennsku í innflytjendaráði og hefur fallist á ósk Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, um að halda formennskunni áfram, en hann mun á næstunni skipa fulltrúa ráðsins til setu fram að næstu alþingiskosningum, líkt og lög gera ráð fyrir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn