Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Lausn á bráðavanda Listaháskólans í sjónmáli

Húsnæðismál Listaháskóla Íslands hafa verið áberandi um nokkra hríð, en skólinn er í dag með starfsemi á 5 mismunandi stöðum. Nýverið kröfðust nemendur á sviðslistabraut við Listaháskólann þess að skólagjöld þeirra yrðu felld niður á vorönn vegna óviðunandi aðstæðna í húsnæði sviðslistabrautar við Sölvhólsgötu. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti sér aðstæður á Sölvhólsgötu og átti samtal við stjórnendur og nemendur skólans.

„Í október síðastliðnum átti ég upplýsandi og gott samtal við nemendur Listaháskóla Íslands um slæma stöðu húsnæðismála skólans. Heimsókn mín í dag staðfestir í einu og öllu þá sögu sem nemendur höfðu að segja. Við ætlum að gera betur í húsnæðismálum skólans eins og kemur fram í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Skólinn hefur fengið 60 milljónir í ár til þess að flytja sviðslistadeild sína í Laugarnes og að auki fær skólinn 30 milljónir til að vinna þarfagreiningu fyrir nýtt framtíðarhúsnæði og standa að samkeppni um það. Kennarar og nemendur í skólanum vinna frábært starf og það er mikilvægt að efla það til framtíðar“ sagði ráðherra.

Að auki var framlag til skólans hækkað á fjárlögum ársins 2018 um 72,6 milljónir króna frá því í fyrra, m.a. til að efla rannsóknir í listum. Alls hafa framlög ríkisins til Listaháskólans hækkað um 27,5% á síðustu tveimur árum. Stýrihópur MRN, Listaháskólans, Framkvæmdasýslu ríkisins og Ríkiseigna var settur á laggirnar vorið 2017. Hann hefur fundað reglulega síðastliðna mánuði. Markmið hópsins er að vinna að gerð athugunar á því hvernig núverandi húsnæði í Laugarnesi gæti nýst undir heildarstarfsemi skólans. Unnið er að frumathugun, frumkostnaðaráætlun, þarfagreiningu og húsrýmisáætlun þar sem farið er yfir þarfir/óskir deilda skólans um rými. Einnig mun hópurinn kortleggja mismunandi útboðs- og fjármögnunarleiðir.
  • Lausn á bráðavanda Listaháskólans í sjónmáli - mynd úr myndasafni númer 1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum