Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýir fulltrúar í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur skipað Eygló Harðardóttur, Lárus Sigurð Lárusson, Sigrúnu Elsu Smáradóttur og Teit Björn Einarsson, tilnefndan af fjármála- og efnahagsráðherra, í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hlutverk stjórnar sjóðsins er meðal annars að veita námslán, innheimta námslán, annast gagnasöfnun varðandi þörf námsmanna á námslánum, og annast fjármál sjóðsins og gerð fjárhagsáætlana. Stjórnin setur úthlutunarreglur sem eru lagðar fram til kynningar og staðfestar af ráðherra eigi síðar en 1. apríl ár hvert.

Eygló Harðardóttir er nýr formaður stjórnar en hún er fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna 2013-2016. Hún var alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn frá 2009-2017 og sat meðal annars í menntamálanefnd 2009 – 2011, og allsherjar- og menntamálanefnd 2011 og 2017. Eygló er með Fil.kand. próf í listasögu frá Stokkhólmsháskóla og hefur stundað framhaldsnám í markaðsfræði við Háskóla Íslands.

Lárus Sigurður Lárusson er nýr varaformaður stjórnar en hann hefur meistarapróf í lögum auk málflutningsréttinda og starfar sem lögmaður hjá Lögmönnum Sundagörðum. Áður var hann lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu og þar áður hjá Persónuvernd. Lárus hefur einnig verið gestafyrirlesari um málefni persónuverndar og meðferð persónuupplýsinga hjá lækna- og hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og hjá tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Að auki hefur hann sinnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum.

Sigrún Elsa Smáradóttir er matvæla og viðskiptafræðingur MBA. Sigrún starfaði sem markaðsstjóri 1996-2008 og var varaborgarfulltrúi og borgarfulltrúi 1998-2010. Hún hefur gengt formennsku í leikskólaráði Reykjavíkurborgar auk þess að hafa m.a. setið í menntaráði, íþrótta- og tómstundaráði, framkvæmda og eignaráði, umhverfisráði, stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og stjórn Faxaflóahafna. Sigrún Elsa hefur einnig setið í stjórn Sparisjóðs Bolungarvíkur, stjórn Lánatryggingarsjóðs Kvenna og var varamaður í bankaráði Seðlabankans. Í dag starfar Sigrún Elsa sem framkvæmdastjóri Iceland Exclusive Travel.

Teitur Björn Einarsson er skipaður samkvæmt tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra. Hann hefur lokið prófi í lögum auk málflutningsréttinda. Teitur var alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2016-2017 og var aðstoðamaður fjármála- og efnahagsráðherra 2014-2016. Hann hefur einnig starfað sem lögmaður hjá LOGOS og OPUS. Þá starfaði Teitur sem stjórnandi hjá Eyrarodda hf.

,,Eitt af áherslumálum mínum sem mennta- og menningarmálaráðherra verður að bæta kjör námsmanna og að ráðast í endurskoðun á námslánakerfinu. Ég vil að sú vinna fari fram í samstarfi við námsmannahreyfingarnar þar sem lögð verður áhersla á jafnrétti til náms, skilvirkni og námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Fyrir í stjórninni eru:
Ragnar Auðun Árnason, tilnefndur af SHÍ
Jóhann Gunnar Þórarinsson, tilnefndur af SÍNE
Rebekka Rún Jóhannesdóttir, tilnefnd af BÍSN
Hildur Björgvinsdóttir, tilnefnd af SÍF

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum