Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Afburðaárangur nýsveina verðlaunaður

27 nýsveinar voru heiðraðir fyrir góða frammistöðu og fagleg vinnubrögð á nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík sem haldin var í tólfta sinn í Ráðhúsi Reykjavíkur að viðstöddu fjölmenni. Að þessu sinni komu nýsveinarnir úr sjö verkmenntaskólum í 18 iðngreinum. Hátíðin er haldin árlega til heiðurs nýsveinum sem luku burtfararprófi í iðn- og verkgreinum með afburðaárangri á sveinsprófi. Að auki voru nýsveinunum veittir styrkir til áframhaldandi náms hér heima og erlendis.

Það eru formenn sveinsprófsnefndanna sem tilnefna afburða nýsveina til verðlaunanna og er hátíðin einn af hornsteinunum í starfi Iðnaðarmannafélagsins.
Þá var heiðursiðnaðarmaður ársins útnefndur en að þessu sinni var það Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, sem hlaut útnefninguna.
Forseti Íslands er verndari hátíðarinnar og mennta- og menningarmálaráðherra, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík ávörpuðu hátíðargesti.

Í ávarpi sínu sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, m.a.: ,,Við erum stolt af starfsnáminu hjá okkur, þar er margt vel gert og í dag sjáum við afraksturinn af starfi undangenginna ára þegar nýir hópar starfsmenntanema eru útskrifaðir. Starfsnám er afar góður kostur þegar kemur að menntun, það býður upp á áhugaverð, skapandi og vel launuð störf.“

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum