Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Hörgársveit hlýtur Orðsporið 2018

Sveitarfélagið Hörgársveit hlýtur Orðsporið 2018 – hvatningarverðlaun sem eru veitt á Degi leikskólans, 6. febrúar ár hvert. Hörgársveit hlýtur verðlaunin í ár fyrir að vera það sveitarfélag sem státar af hæsta hlutfalli leikskólakennara sem starfa við uppeldi og menntun leikskólabarna.

Samkvæmt lögum eiga að lágmarki tveir þriðju, eða 66,66%, þeirra sem starfa við uppeldi og menntun leikskólabarna að hafa leyfisbréf til kennslu í leikskóla. Hlutfall leikskólakennara í leikskólanum Álfasteini í Hörgársveit er 84 prósent og því vel yfir hinu lögbundna lágmarki - og jafnframt það hæsta hér á landi.

Orðsporið 2018 er veitt á Degi leikskólans, 6. febrúar en haldið er upp á þennan dag í ellefta sinn í dag. Sjötti febrúar er merkilegur dagur í íslenskri leikskólasögu því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmið dagsins er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og beina athygli fólks að því faglega og metnaðarfulla starfi sem innt er af hendi í leikskólum dagsins á degi hverjum. Þetta er sjötta árið sem verðlaunin eru veitt.

Efnt var til hátíðarhalda í leikskólanum Álfasteini og afhenti Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, Orðsporið 2018. Við verðlaununum tók Hugrún Ósk Hermannsdóttir, leikskólastjóri Álfasteins í Hörgársveit.
Björk Óttarsdóttir, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, flutti ávarp. Hún fór yfir sögu Dags leikskólans í stuttu máli og ræddi mikilvægi þess að í leikskólum sé metnaðarfullt og vel menntað starfsfólk. Leikskólabörnin í Álfasteini sungu fyrir gesti.

Heilsuleikskólinn Álfasteinn er eini leikskóli Hörgársveitar, hefur verið starfræktur í 22 ár og rúmar 32 börn. Leikskólastjóri er Hugrún Ósk Hermannsdóttir og hefur hún verið við stjórnvölinn nánast frá upphafi. Einkunnarorð Álfasteins eru „með sól í hjarta“ og mikil áhersla er lögð á umhyggju fyrir barninu. „Skólabragurinn er jákvæður og nægur tími gefst til að hlusta á börnin, leyfa þeim að prófa sig áfram og sinna þeim öllum persónulega. Því getur kennarinn upplifað nánd og endurgjöf og fundið að starf hans er mikils virði. Það er gaman og gott að vinna og vera til á Álfasteini,“ segir Hugrún.

Samstarfshóp um Dag leikskólans skipa Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum