Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Samstarfsráðherrar Norðurlanda funda í Stokkhólmi

Frá fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna í Stokkhólmi. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem jafnframt er samstarfsráðherra Norðurlanda, tók í dag þátt í fundi samstarfsráðherra Norðurlanda sem fram fór í Stokkhólmi. Er þetta fyrsti fundurinn undir formennsku Svíþjóðar í Norrænu ráðherranefndanefndinni.

Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar sem jafnframt er norrænn samstarfsráðherra, stýrði fundinum. Rætt var meðal annars um fjárveitingar til norræns samstarfs á næsta ári, um nýja norræna samstarfsáætlun um málefni norðurskautsins fyrir árin 2018 til 2021, og um sameiginlegt kynningarstarf Norðurlandanna á sviði menningar, matvæla, loftslagsmála og fleiri mála þar sem Norðurlöndin hafa sameiginlega margt fram að færa. Ísland tekur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári, 2019, og gerði Sigurður Ingi grein fyrir undirbúningi þar að lútandi.

Í tengslum við fundinn var kynnt ný skýrsla rannsóknarstofnunarinnar NordRegio um stöðu Norðurlandanna undir yfirskriftinni State of the Nordic Region 2018.

Í skýrslunni er að finna yfirgripsmiklar upplýsingar um atvinnulíf, menningu og mannlíf á Norðurlöndunum, auk umfjöllunar um lífhagkerfið, menningu, stafræna væðingu velferðarkerfis. Sérstaka athygli vakti hve íslenskir landshlutar koma vel út í norrænum og evrópskum samanburði um núverandi og mögulega framþróun og vöxt.

Það kemur ekki á óvart að Íslendingar sækja kvikmyndahús meira en aðrir Norðurlandabúar en Finnar og Svíar sækja mest bókasöfn og opinber söfn.

Hagvöxtur, þ.m.t. vöxtur kaupmáttar, hefur verið hæstur á Íslandi af Norðurlöndunum á síðustu árum. Þá er atvinnuþátttaka, bæði almennt og sérstaklega kvenna mest á Íslandi af Norðurlöndunum og mun hærri en að meðaltali í Evrópu.

Sigurður Ingi Jóhannsson tekur þátt í fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna í Stokkhólmi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira