Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntadagur atvinnulífsins

Menntadagur atvinnulífsins var í Hörpu fimmtudaginn 15. febrúar 2018 undir yfirskriftinni; Hvað verður um starfið þitt? Menntadagurinn var helgaður þeim áskorunum sem samfélög víða um heim standa frammi fyrir á tímum tæknibreytinga, en fræðimenn hafa bent á að mannfólkið muni upplifa meiri og hraðari breytingar á fleiri sviðum þjóðfélagsins en áður hefur þekkst.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hélt inngangserindi á Menntadeginum og ræddi meðal annars um tækifæri og áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar. ,,Ljóst er að fjórða iðnbyltingin felur í sér sérstaka áskorun til menntunar sem hefur leitt til tiltekinna starfa og starfsréttinda í samfélaginu. Tækniframfarir kalla á meiri og öðruvísi hæfni en kemur endilega fram í námskrám og námsbrautarlýsingum. Stöðugt þarf að endurskoða starfslýsingar og hæfniviðmið. Gömul störf endurnýjast, ný störf verða til og sum störf hverfa. Skylda menntakerfisins er að sýna stöðuga viðleitni til þess að halda í við þróunina, vinna þétt með atvinnulífinu í að mennta fólk til að öðlast hæfni til að sinna störfum nútíðar og framtíðar‘‘ var meðal þess sem ráðherra sagði.

Í umfjöllun sinni um helstu áskoranir menntakerfisins nefndi ráðherra einkum niðurstöður úr PISA prófum, brotthvarf úr námi og nýliðun í kennarastéttinni. Vinna við  að takast á við þessar áskoranir er komin af stað innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins en undanfarið hafa starfshópar unnið að tillögum til umbóta á þessum sviðum.

Ráðherra fjallaði einnig ítarlega um þær breytingar á sviði iðn- og verknáms sem unnið er að í samstarfi við atvinnulífið, þ.á m. endurskoðun laga og reglugerða um starfsmenntun, innleiðingur rafrænnar ferilbókar í starfsnámi, einföldun og eflingu stjórnskipulags starfsréttindanámsins og þróunarverkefni sem ráðuneytið, aðilar vinnumarkaðarins og háskólarnir standa saman að.

Á Menntadeginum er menntafyrirtæki og menntasproti ársins einnig valið  en að þessu sinni var Iceland Travel útnefnt menntafyrirtækið og Landsnet menntasprotinn.

  • $alt

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum