Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2018 Innviðaráðuneytið

Til umsagnar drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna samþykktar um vinnuskilyrði farmanna

Drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna hafa verið sett fram til umsagnar á samráðsgátt um opið samráð stjórnvalda við almenning. Umsagnarfrestur er til 2. mars.

Á 94. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (International Labour Organization - ILO) í Genf í febrúar 2006 var gengið frá samþykkt um vinnuskilyrði farmanna og var Ísland þar meðal þátttakenda. Samþykktin felur í sér uppfærðar viðmiðanir alþjóðasamþykkta og alþjóðatilmæla um vinnuskilyrði farmanna auk grundvallarreglna sem er að finna í öðrum alþjóðavinnumálasamþykktum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sjómannalögum, nr. 35/1985, lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, og lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Verði frumvarpið að lögum og nauðsynlegar reglugerðarbreytingar gerðar í kjölfarið verður unnt að fullgilda samþykktina.

Þó að meginmarkmið samþykktarinnar sé að tryggja farmönnum (starfsmönnum á farþega- og flutningaskipum) tiltekin réttindi þá er fullgilding samþykktarinnar ekki síður nauðsynleg svo Ísland geti sinnt virku hafnarríkiseftirliti, þ.e. haft m.a. eftirlit með því að önnur ríki fari eftir ákvæðum samþykktarinnar. Nágrannaríki Íslands, þ.e. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa öll á síðustu árum fullgilt samþykktina auk fjölda annarra ríkja í Evrópu. Samkvæmt upplýsingum á vef Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa 84 ríki fullgilt samþykktina og ráða þau yfir 91% af skipastóli heimsins miðað við brúttótonnatölu.

Umsögnum um drögin skal skilað fyrir lok dags 2. mars nk. í gegnum samráðsgátt stjórnarráðsins. Nánari upplýsingar veitir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í gegnum netfangið [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum