Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Kynjajafnrétti í íþróttum

Niðurstöður rannsóknar um lagalegt umhverfi íþrótta á Íslandi með hliðjón af kynjajafnréttissjónarmiðum voru kynntar af Maríu Rún Bjarnadóttur, doktorsnema við Sussex háskóla, á málstofu í Háskólanum í Reykjavík í dag. Lagadeild og íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík efndu til málstofunnar og voru niðurstöður rannsóknarinnar ræddar af þátttakendum í pallborði og tekið við spurningum frá fundarmönnum.

Í kynningu sinni gerði María Rún grein fyrir því að kynjasjónarmiða hafi hvorki gætt við gerð fyrstu íþróttalöga frá 1940 né við endurgerð þeirra 1998. Innlendar og alþjóðlegar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda voru kannaðar og kynjasjónarmið við úthlutun opinberra fjármuna til íþróttastarfsemi. Inntak og uppbygging íslensku íþróttahreyfingarinnar var skoðað með hliðsjón af sömu sjónarmiðum. Í niðurstöðum Maríu kemur m.a. fram að mikið svigrúm sé til úrbóta, eins og að hafa íþróttastefnu kynjaða, endurskoða lagaramma og beiting aðferða kynjaðrar fjárlagagerðar á úthlutun fjármagns til íþróttamála.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Lárus Blöndal forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Guðni Bergsson formaður Knattspyrnusambands Íslands sátu í pallborði ásamt Maríu og tóku við fyrirspurnum gesta úr sal.
Fundarstjóri var Dr. Bjarni Már Magnússon dósent við lagadeild HR.

,,Ég tek glöð við ábendingum sem koma fram í rannsókninni en þær geta meðal annars nýst í vinnu við gerð nýrrar íþróttastefnu innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Það er ávallt svigrúm til úrbóta þó á sama tíma sé mikilvægt að draga fram það sem þegar hefur verið gert. Má þar meðal annars nefna samvinnu ráðuneytisins við HR og ÍSÍ um rannsókn á stöðu kynja í íþróttahreyfingunni, virkt eftirlit með jafnréttisáætlunum íþróttafélaga sem Jafnréttisstofa vinnur að og rannsókn sem ráðist verður í og snýr að skipulagi og framkvæmd íþróttakennslu í grunnskólum. Þá má einnig nefna starfshóp sem var skipaður í kjölfar áskorunar íþróttakvenna undir #églíka en hlutverk hópsins er að koma með tillögur til úrbóta þar sem þeirra er þörf“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra meðal annars í pallborðsumræðum á fundinum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn