Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Tekist á við fyrirsjáanlegan kennaraskort

Nýliðun í kennarastétt og fyrirsjáanlegur kennaraskortur var efni funda sem mennta- og menningarmálaráðherra átti nýverið með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fulltrúa fjármálaráðherra og fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, menntavísindasviðs Háskóla Íslands, kennaradeildar Háskólans á Akureyri og forystu kennara. Lagðar voru fram tillögur sveitarfélaganna og háskólanna tveggja um aðgerðir til að mæta yfirvofandi kennaraskorti á komandi árum. Þá lagði mennta- og menningarmálaráðherra fram tillögu að verkáætlun vegna aðgerða til að efla nýliðun í kennarastétt og sporna við brotthvarfi kennara úr starfi.

Á fundi ráðherra með formanni og varaformanni Kennarasambands Íslands var einnig farið yfir tillögu ráðherra að verkáætluninni og lagði ráðherra ríka áherslu á gott samstarf við forystu kennara um þessi mál. Vinnan mun fara fram með samvinnu ríkis og sveitarfélaga, kennarahreyfingarinnar og háskóla sem mennta kennara til starfa. Ljóst er að koma þarf til móts við þarfir framtíðar fyrir kennara á öllum skólastigum.

Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar er útlit fyrir að börnum á grunnskólaaldri muni fjölga um 5.700 börn eða um 13%, fram til ársins 2035. Áætluð þörf fyrir fjölda stöðugilda grunnskólakennara mun á sama tímabili aukast um 540. Svipuð þróun er fyrirsjáanleg á áætlaðri þörf fyrir kennara á leik- og framhaldsskólastigi.

,,Yfirvofandi kennaraskortur er stór áskorun sem við ætlum að takast á við og leysa. Þessir fundir eru mjög gott skref í þeirri vinnu en ég legg ríka áherslu á góða samvinnu milli allra þessara aðila. Í umræðunni um bætt starfsumhverfi kennara tel ég mikilvægt að virkja heimilin í meiri mæli með skólunum til að styrkja umgjörð þeirra. Þetta er samfélagslegt verkefni sem allir þurfa að koma að ‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira