Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Námsmenn leggja áherslu á náið samstarf

Kjör námsmanna voru rædd þegar fulltrúar Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) hittu Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, nýverið á skrifstofu ráðherra. Á fundinum fóru fulltrúar LÍS yfir áherslur samtakanna í tengslum við breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Samtökin hafa sett fram áherslur sínar í 16 liðum sem snúa meðal annars að hækkun frítekjumarks og grunnframfærslu, bættum húsnæðismálum stúdenta og nánu samstarfi við stjórnvöld í tengslum við endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna.

LÍS voru stofnuð 3. nóvember 2013 og eru samtök háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. LÍS eru regnhlífarsamtök og að þeim standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis. LÍS er því í forsvari fyrir rúmlega 20 þúsund íslenskra stúdenta.

,,Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri öflugu og metnaðarfullu hagsmunagæslu sem LÍS stendur fyrir. Ég hef lagt áherslu á að námsmenn verði með í ráðum þegar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna verða útfærðar. Fulltrúar námsmanna munu fá fulltrúa í verkefnahóp um endurskoðun á námslánakerfinu. Við ætlum að klára endurskoðunina á þessu kjörtímabili og bæta kjör námsmanna. Ég hlakka til að starfa með námsmannahreyfingunni á þeirri vegferð,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira