Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Heilsueflandi framhaldsskóli í Hafnarfirði

Flensborgarskóli er heilsueflandi framhaldsskóli og var hann fyrsti framhaldsskólinn á landinu til þess að innleiða þá hugmyndafræði. Í skólanum er unnið með jákvæða menntun, gróskuhugarfar, einbeitingu (núvitund) og almenna vellíðan. Námskrá skólans er sniðin utan um þessa hugsun og einkennist skólinn að sögn stjórnenda af sterkum skólabrag, jákvæðu andrúmslofti og hvetjandi vinnuanda.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, heimsótti skólann í dag en nú standa yfir svokallaðir Vakningadagar og því mikið um að vera. Þá er hefðbundin dagskrá brotin upp og boðið upp á ýmis námskeið og skemmtanir. Í heimsókninni fékk ráðherrann góða kynningu á starfseminni og ræddi við stjórnendur, starfsfólk og nemendur ásamt því að hlýða á rapparana JóaP og Króla taka lagið, en Króli er nemandi við skólann. Í gær var þar mennta- og starfahlaðborð þar sem hátt í 30 fyrirtæki, stofnanir og skólar kynntu starfsemi sína, menntun sem er í boði og hvaða menntunr er krafist.

„Það er virkilega gott starf unnið í Flensborgarskólanum en skólinn er brautryðjandi þegar kemur að samtvinningu skólastarfs og heilsusamlegs lífsstíls. Ég finn fyrir góðu samstarfi milli nemenda og kennara skólans sem skilar sér greinilega á jákvæðan hátt inn skólastarfið. Þá fannst mér mjög gaman að fá kynningu á því öfluga félagslífi sem nemendur skólans standa fyrir. Ásta Sól Bjarkadóttir, formaður nemendafélagsins, og allir þeir flottu krakkar sem að taka þátt eiga mikið hrós skilið. Þátttaka í félagsstarfi sem þessu er frábært veganesti út í lífið,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.

Flensborgarskólinn er með elstu starfandi skólum á Íslandi, en hann hefur tekið margvíslegum breytingum á langri ævi. Hann var upphaflega stofnaður sem barnaskóli árið 1877, en var breytt í ,,alþýðu-og gagnfræðaskóla‘‘ fimm árum síðar eða árið 1882, en við það ártal hefur aldur skólans oftast verið miðaður.

Flensborgarskólinn er bóknámsskóli sem leggur áherslu á nám til stúdentsprófs af félagsvísinda-, raunvísinda- og viðskipta- og hagfræðibraut, auk opinnar námsbrautar þar sem nemendur geta hannað sína eigin námsbraut úr námsframboði skólans. Einnig býður skólinn nám á starfsbraut sem er ætluð nemendum sem þurfa einstaklingsmiðað nám vegna fötlunar eða sértækra námsörðugleika. Á haustönn 2017 voru ríflega 700 nemendur skráðir í skólann og við hann starfa að öllu jöfnu um 90-100 starfsmenn.
Meginmarkmið heilsueflandi framhaldsskóla er að marka stefnu um hollustuþætti, heilbrigði, aðbúnað og öryggi þeirra sem nema og starfa í Flensborgarskólanum, og er þeirri stefnu ætlað að hafa áhrif á allar daglegar venjur og starf í skólanum.

 

 


  • Heilsueflandi framhaldsskóli í Hafnarfirði - mynd úr myndasafni númer 1
  • Heilsueflandi framhaldsskóli í Hafnarfirði - mynd úr myndasafni númer 2
  • Heilsueflandi framhaldsskóli í Hafnarfirði - mynd úr myndasafni númer 3
  • Heilsueflandi framhaldsskóli í Hafnarfirði - mynd úr myndasafni númer 4
  • Heilsueflandi framhaldsskóli í Hafnarfirði - mynd úr myndasafni númer 5

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum