Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Skólastarf í 100 ár

Háskólinn á Bifröst fagnar 100 ára afmæli í ár. Af því tilefni efndi háskólinn til málþings sem markaði einnig upphaf  afmælishátíðar skólans. Á málþinginu var farið vítt og breitt yfir sögu háskólans og hún skoðuð m.a. út frá fullveldi Íslands og þætti skólans í menntun kvenna í gegnum tíðina.

Háskólinn á Bifröst á rætur að rekja  til Samvinnuskólans sem var stofnaður árið 1918 í Reykjavík og hóf starfsemi í desember. Sumarið 1955 var skólinn fluttur að Bifröst í Norðurárdal í Borgarfirði og hefur verið starfræktur þar síðan. Fram til 1990 var skólinn deild innan Sambands íslenskra samvinnufélaga og í eigu þess en hann hefur verið sjálfseignarstofnun síðan 1990. Skólinn hefur breyst mikið frá stofnun og hafa þær breytingar verið í takt við breyttar aðstæður og auknar menntunarkröfur samfélagsins. Í upphafi var um að ræða fárra mánaða nám, en í dag útskrifast nemendur skólans með BS eða BA gráðu eftir þriggja ára háskólanám eða meistaragráðu eftir fimm ára nám en skólinn hóf kennslu á meistarastigi sumarið 2003.

Háskólinn á Bifröst er fjölbreyttur háskóli, sem býður nemendum sínum upp á fræðslu, þekkingu og þjálfun í viðskiptafræði og viðskiptalögfræði, heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Hlutverk skólans er að búa nemendur undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í innlendu og alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp á málþinginu og sagði þar m.a.: „Vísindaleg þekking og hagnýting hennar er samtvinnuð daglegu lífi okkar og samfélagsgerð. Samlegðaráhrifin sem skapast er við samnýtum krafta okkar, þekkingu og fjármagn eru mikilvæg og með auknu samstarfi getum við tryggt og viðhaldið hér sterkum innviðum, hagþróun og velferð til framtíðar. Það hefur einmitt verið og er eitt af einkennum Háskólans á Bifröst að hann leggur rækt við öflug tengsl við atvinnulíf, rækir samfélagslegar skyldur sínar og með öflugu fjarnámi nær hann til stærri markhópa. Dagurinn í dag er til að líta yfir farinn veg og horfa til framtíðar,  þakka fyrir unnin störf og ekki síst - til að gleðjast saman. Óska ég öllum hér innilega til hamingju með 100 ára afmæli Háskólans á Bifröst.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn