Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Árelía Eydís skipuð formaður Jafnréttisráðs

Ásmundur Einar ásamt Árelíu og Daníel - myndVelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur skipað nýtt Jafnréttisráð samkvæmt lögum. Árelía Eydís Guðmundsdóttir er formaður þess og Daníel E. Arnarsson varaformaður. Ráðherra hitti þau í velferðarráðuneytinu í dag.

Jafnréttisráð starfar samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það skal vera í nánum tengslum við Jafnréttisstofu og vera ráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samþættingu fjölskyldu og atvinnulífs.

Jafnréttisráð gegnir einnig hlutverki við undirbúning jafnréttisþings sem haldið er á tveggja ára fresti. Á stuttum fundi í ráðuneytinu í dag var rætt um efni jafnréttisþings sem haldið verður 7. og 8. mars næstkomandi. Boðað hefur verið til fyrsta fundar nýskipaðs Jafnréttisráðs sem haldinn verður í lok þessarar viku.

Jafnréttisráð er þannig skipað að auk formanns sem ráðherra skipar án tilnefninga eiga þar sæti tveir fulltrúar sem tilnefndir eru af samtökum launafólks, tveir fulltrúar tilnefndir sameiginlega af samtökum atvinnurekenda, tveir fulltrúar sem tilnefndir eru sameiginlega af Femínistafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands, einn fulltrúi sem tilnefndur er sameiginlega af Samtökum um kvennaathvarf og Stígamótum, einn fulltrúi sem tilnefndur er af Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, einn fulltrúi sem tilnefndur er af Félagi um foreldrajafnrétti og einn fulltrúa sem tilnefndur er af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira