Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Samtakamáttur hagsmunaaðila grundvallaratriði þegar kemur að eflingu menntakerfisins

Málefni kennara og nýliðun, bætt starfsumhverfi kennara, efling kennaramenntunar og fagleg starfsþróun kennara voru meðal umræðuefna á fundi Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og samráðsnefndar um leik- og grunnskóla.

Á fundinum, sem fram fór 21. febrúar síðastliðinn, lagði ráðherra m.a. mikla áherslu á mikilvægi víðtæks samstarfs í menntamálum til að styrkja þennan mikilvæga málaflokk.
Einnig ræddi hún um eftirfylgni með úttekt á menntun án aðgreiningar hér á landi og mikilvægi samráðs allra aðila í þeim efnum. Málefni nemenda af erlendum uppruna voru líka rædd og nauðsyn þess að bæta þjónustu við þann nemendahóp á öllum skólastigum. Ráðherra hvatti líka alla til að takast á við PISA könnunina með jákvæðu hugarfari og að nemendur verði hvattir til að leggja sig fram og gera sitt besta.

,,Ég tel mikilvægt að eiga gott samstarf við alla hagsmunaaðila til að efla menntakerfið hér á landi. Á fundinum gafst gott tækifæri fyrir alla aðila í samráðsnefndinni til að eiga beint og milliliðalaust samtal við ráðherra um mikilvæg úrlausnar efni á leik- og grunnskólastigi. Þetta var góður og kraftmikill fundur og ég finn fyrir sameiginlegum skilningi á því hvert skuli stefna,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Í samráðsnefndinni eiga sæti fulltrúar úr forystu allra helstu hagsmunaðila leik- og grunnskóla. Auk ráðuneytisins eiga þar sæti fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Samtaka sjálfstæðra skola, Heimilis og skóla og Eflingar.
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn