Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ræddi mannréttindi við utanríkisráðherra Filippseyja

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Peter S. Cayetano utanríkisráðherra Filippseyja. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fund með Peter S. Cayetano, utanríkisráðherra Filippseyja, í Genf en ráðherra gerði í ræðu sinni fyrir Mannréttindaráði SÞ í gær stöðu mannréttinda á Filippseyjum að sérstöku umtalsefni. Ráðherra átti jafnframt tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Spánar, Kanda og Liechtenstein  og ræddi einnig við embættismenn hjá SÞ.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fund með Peter S. Cayetano, utanríkisráðherra Filippseyja, í Genf en ráðherra gerði í ræðu sinni fyrir Mannréttindaráði SÞ í gær stöðu mannréttinda á Filippseyjum að sérstöku umtalsefni. „Það var gott að fá tækifæri til að ræða beint við starfsbróður minn á Filippseyjum og skýra betur út fyrir honum afstöðu Íslands til framgöngu filippeyskra stjórnvalda í baráttu gegn útbreiðslu fíkniefna. Þótt við Cayetano værum ekki sammála að öllu leyti var andrúmsloftið á fundinum jákvætt. Orð eru til alls fyrst,“ sagði utanríkisráðherra að fundi loknum.

Það var Cayetano sem óskaði eftir fundinum en þar lýsti hann baráttu stjórnvalda á Filippseyjum gegn útbreiðslu eiturlyfja. Ísland talaði á síðasta ári fyrir hönd næstum fjörutíu þjóða og gagnrýndi mannréttindabrot stjórnvalda á Filippseyjum. Ítrekaði Guðlaugur Þór afstöðu Íslands í ræðu sinni í ráðinu í gær. Filippeyski ráðherrann kvaðst vonsvikinn yfir málflutningi Íslendinga. Stjórnvöld á Filippseyjum væru reiðubúin til að opna dyrnar fyrir þeim sem kynna vildu sér málin en væri mikilvægt væri að fólk myndaði sér ekki skoðun fyrirfram. 
Utanríkisráðherra lagði áherslu á að slíkt eftirlit ætti að fara fram fyrir tilstilli viðeigandi stofnana Sameinuðu þjóðanna. „Ef Ísland getur stuðlað að því Filippseyjar láti af mótstöðu sinni við heimsóknir fulltrúa mannréttindastofnana SÞ er sjálfsagt að við leggjum okkar lóð á vogarskálar í þeim efnum,“ sagði Guðlaugur Þór og bætti við að það væri skref í rétta átt að Filippseyingar væru reiðubúnir að opna dyrnar með þessum hætti.

Í dag átti utanríkisráðherra einnig tvíhliða fund með Alfonso María Dastis Quecedo, utanríkisráðherra Spánar, þar sem efnahagsmál og útganga Breta úr Evrópusambandinu komu meðal annars til tals. Þá ræddu ráðherrarnir málefni Katalóníu. Á fundinum lýsti Guðlaugur Þór yfir ánægju með þau áform spænskra stjórnvalda að senda erindreka sinn til Reykjavíkur til að sinna tvíhliða samskiptum ríkjanna.

Síðdegis hitti utanríkisráðherra Chrystiu Freeland, utanríkisráðherra Kanada. Þau ræddu meðal annars  norðurslóðamál og fríverslunarmál. Freeland spurði um áhuga Íslendinga á þátttöku í samstarfi ríkja um grundvallarréttindi hinsegin fólks (Equal Rights Coalition) en utanríkisráðherra lýsti því yfir í ræðu sinni í Mannréttindaráðinu í gær að Ísland stefndi að taka þátt í því. Í gær hittust svo þau Guðlaugur Þór og Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og ræddu tvíhliða mál.

Utanríkisráðherra hitti einnig Filippo Grandi, flóttamannafulltrúa SÞ, í dag. Grandi þakkaði Íslendingum fyrir að taka vel á móti kvótaflóttafólki og fór um leið yfir þær áskoranir sem UNHCR, Flóttamannastofnun SÞ, stendur frammi fyrir.

Þá átti Guðlaugur Þór einnig fund með mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Zeid Ra‘ad al Hussein, í heimsókn sinni til Genf. Lýsti mannréttindafulltrúinn yfir ánægju með jafnlaunavottun og sagðist gjarnan vilja fá að fylgjast með framkvæmd hennar. Loks hitti ráðherra Isabelle Durant, aðstoðarframkvæmdastjóra UNCTAD, stofnun Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun. Þau ræddu meðal annars um mögulegt samstarf Íslands og UNCTAD í málefnum hafsins með sérstakri áherslu á smáeyríki.

  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi SÞ.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Alfonso María Dastis Quecedo, utanríkisráðherra Spánar.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Peter S. Cayetano utanríkisráðherra Filippseyja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira