Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Hornsteinn menntunar á Íslandi í rúma öld

Háskóli Íslands hefur verið hornsteinn þekkingar og uppbyggingar á Íslandi í meira en heila öld. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sótti skólann heim og kynnti sér fjölbreytt menntunar- og rannsóknastarf sem fram fer innan veggja hans.

Jón Atli Benediktsson, rektor, og Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, fóru yfir stefnu og áherslur Háskólans. Í samtali þeirra og ráðherra var meðal annars rætt um helstu áskoranir sem skólinn stendur frammi fyrir og þær öru breytingar sem hafa átt sér stað. Má þar nefna áhrif nýrrar tækni, mikla aukningu erlendra námsmanna og aukið erlent samstarf.

Þá fékk ráðherra kynningu á ólíkum rannsóknum og fræðasviðum innan skólans. Magnús Tumi Guðmundsson, deildarforseti Jarðvísindadeildar, fór yfir starfsemi deildarinnar, Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, kynnti máltækni í námi og rannsóknum, og Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði, kynnti rannsókn sem Háskólinn er að hefja í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu. Í rannsókninni eru skoðuð áhrif áfalla á heilsufar kvenna en þetta mun vera ein stærsta vísindarannsókn sinnar tegundar á heimsvísu. Að lokum átti ráðherra fund með Stúdentaráði þar sem farið var yfir starfsemi ráðsins og helstu áherslumál nemenda.

„Háskóli Íslands hefur fylgt þjóðinni í meira en öld. Óumdeilanlegar framfarir hafa átt sér stað í starfi skólans í gegnum tíðina og þessi heimsókn sýnir glögglega hversu öflugt og framsækið starf fer fram innan veggja skólans. Skólinn gegnir lykilhlutverki þegar kemur að fræðslu almennings, menntun sérfræðinga fyrir atvinnulífið. Við ætlum að halda áfram að efla háskólastigið og að byggja það upp af myndarskap á næstu árum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Háskóli Íslands var stofnaður 17. júní árið 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta og fyrstu 29 árin var hann til húsa í Alþingishúsinu við Austurvöll. Við stofnun Háskóla Íslands voru Prestaskólinn, Læknaskólinn og Lagaskólinn sameinaðir og mynduðu hver sína deild skólans, auk þess sem heimspekideild var bætt við.
Háskólaárið 1911-1912 voru nemendur einungis 45 og þar af ein kona, en nú stunda rúmlega þrettán þúsund nemendur nám við Háskóla Íslands, um tveir þriðju hlutar þeirra konur. Við skólann starfa allt að 1500 starfsmenn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn