Hoppa yfir valmynd
2. mars 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sammála um að mikilvægt sé að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri í skólakerfinu

Skóli án aðgreiningar var umfjöllunarefni málþings á vegum Öryrkjabandalags Íslands þann 1. mars síðastliðinn. Markmiðið með málþinginu var að varpa ljósi á þjónustu sem í boði er fyrir nemendur með fatlanir og raskanir, skoða hvaða úrræði eru í boði og hvað mætti betur fara.

Á málþinginu var komið víða við og málefnið skoðað út frá sjónarhóli margra hagsmunaaðila. Sagðar voru reynslusögur kennara, foreldra og nemenda, Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður landssamtakanna Þroskahjálp fjallaði um menntun á tímum alþjóðlegra mannréttindasamninga, Árni Einarsson skólastjóri Klettaskóla fór yfir sögu og starfsemi skólans, Sara Dögg Svanhildardóttir fagsstjóri hjá Arnarskóla fjallaði um hlutverk og stöðu sérskóla og Arna Hrönn Aradóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg fjallaði um atvinnutengt nám nemenda í 9. og 10. bekk.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp í upphafi málþingsins. Í ávarpi sínu fór ráðherra m.a. yfir helstu niðurstöður nýlegrar úttektar um Menntun án aðgreiningar sem unnin var af Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir. Meðal þess sem kemur fram í úttektinni er að:

• Vinna þarf að því að ná sameiginlegum skilningi á því hvað menntun án aðgreiningar þýðir
• Endurskoða þarf úthlutun fjármagns til aukinnar skilvirkni og betri nýtingu fjármagns
• Fagleg starfsþróun kennara verði að styðja við góða framkvæmd á skóla án aðgreiningar
• Betra stuðningskerfi og meiri samfellu þurfi í skólastigum

,,Menntun og framþróun hennar er lifandi og óendanlegt viðfangsefni. Meginmarkmiðið er að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og tryggja að börn njóti bernsku sinnar í skólastarfi. Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til náms óháð aðstæðum,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
  • Sammála um að mikilvægt sé að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri í skólakerfinu - mynd úr myndasafni númer 1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum