Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Framtíðin er full af tækifærum

Háskóladagurinn 2018 var settur við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík 3.mars síðastliðinn. Þar gafst fólki tækifæri á að kynna sér það fjölbreytta námsframboð sem háskólar landsins hafa upp á að bjóða og spjalla við nemendur, kennara og náms- og starfsráðgjafa um allt sem viðkemur náminu.
Að þessu sinni gátu gestir meðal annars upplifað martröð í sýndarveruleika, prófað nýjan talgreini fyrir íslensku, skoðað loftmótorhjól og kappakstursbíla, gert efnafræðitilraun, prófað tölvuleiki sem nemendur hafa búið til á þremur vikum, mælt skothraða í handboltaskoti og stökkhæð og skoðað þrívíddarprentuð líffæri svo fátt eitt sé nefnt.

,,Háskóladagurinn hefur fest sig í sessi og er orðinn nokkurs konar vorboði. Dagurinn sem allir háskólar á Íslandi taka höndum saman og kynna þær fjölmörgu námsleiðir sem stúdentum standa til boða. Hér gefst dýrmætt tækifæri fyrir verðandi nemendur og okkur öll til að öðlast innsýn inn í það fjölbreytta, metnaðarfulla og faglega starf sem unnið er í háskólum landsins. Framtíðin er full af tækifærum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er hún setti Háskóladaginn 2018.

Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landsbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Listaháskóli Íslands standa að deginum. Að auki verður Háskóladagurinn með kynningar um allt land frá 5.mars – 15.mars 2018. Sjá nánar á vef Háskóladagsins.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira