Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Yfirlýsing vegna framkvæmdar samræmdra prófa í íslensku

Mennta- og menningarmálaráðuneyti harmar að framkvæmd samræmdra prófa í íslensku í 9. bekk hafi mistekist með tilheyrandi óþægindum fyrir nemendur og kennara. 
 
Mennta- og menningarmálaráðherra átti fund með Arnóri Guðmundssyni, forstjóra Menntamálastofnunar síðdegis í gær þar sem farið var yfir umfang og ástæður vandans. 
Forstjóri Menntamálastofnunar upplýsti að tæknileg mistök hjá þjónustuaðila prófakerfisins urðu til þess að prófið var ekki fært yfir á afkastameiri netþjón. Hann greindi einnig frá því að þegar vandamálið kom í ljós setti Menntamálastofnun í gang viðbragðsáætlun og var áhersla lögð á að upplýsa alla um stöðuna. 

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað til fundar með öllum helstu hagsmunaaðilum á miðvikudaginn 14. mars n.k. til að ákveða hvernig unnið verði úr stöðu mála í tengslum við samræmt könnunarpróf í íslensku. Hagsmunir nemenda verða hafðir að leiðarljósi í því mati.

Samkvæmt upplýsingum frá Menntamálastofnun gengur framkvæmd samræmds könnunarprófs í stærðfræði, sem nú stendur yfir, samkvæmt áætlun. Það er von ráðuneytisins að nemendur geti lokið því prófi og enskuprófinu sem fram fer á morgun farsællega.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira