Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Styrkveiting til framhaldsnáms í fisktækni

Tveir nemendur við Fisktækniskólann í Grindavík hlutu á dögunum styrki til framhaldsnáms við skólann, þær Herborg Þorláksdóttir og Þórunn Eydís Hraundal. Fisktækniskólinn sinnir mikilvægu hlutverki í menntun starfsfólks í sjávarútvegi en skólinn býður nú upp á grunnnám í fisktækni og þrjár framhaldsbrautir. Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti styrkina, sem Íslenska sjávarútvegssýningin (IceFish) veitir, við hátíðlega athöfn í Sjávarklasanum í gær. Herborg hlaut 500 þúsund kr. styrk til náms í Marel-vinnslutækni og Þórunn sömu upphæð til framhaldsnáms í fiskeldi.

„Það er sannarlega heiður að fá að afhenda þessa veglegu styrki úr IceFish-námssjóðnum, enda skiptir miklu máli að hvetja til dáða nemendur sem taka þátt í að skapa ný tækifæri í sjávarútvegsgreinum. Það eru að skapast fjölmörg ný störf í sjávarútvegi og tengdum greinum samfara auknum rannsóknum, tækniþróun og nýsköpun. Menntun og menntastefna hlýtur ávallt að horfa til þess sem hæst ber í þeim efnum. Námsstyrkirnir örva nemendur til að skara fram úr og ná árangri í sínum fögum og þeim ber að fagna,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir af þessu tilefni.

Framkvæmdastjóri IceFish, Marianne Rasmussen-Coulling var einnig viðstödd afhendinguna ásamt Ólafi Jóni Arnbjörnssyni, skólameistara Fisktækniskólans, Sigurjóni Elíassyni frá Marel, Bjarna Þór Jónssyni fulltrúa sjávarútvegssýningarinnar og Erni Pálssyni frá Landssambandi smábátaeigenda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira