Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Breytingar á reglugerð um innritun í framhaldsskóla – „25 ára reglan“ afnumin

  - myndHaraldur Jónasson / Hari
Drög að breytingum á reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla eru nú komin í opið samráð á vef Samráðsgáttarinnar. Þar er mælt fyrir tveimur efnisbreytingum á núverandi reglugerð; annars vegar því að fella út vísun til forgangs nemenda yngri en 25 ára til framhaldsskólavistar og hins vegar að niðurstöður samræmdra könnunarprófa séu nýttar við mat á umsóknum um framhaldsskólavist.

Öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingar um drögin í gegnum samráðsgáttina en markmið hennar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila.

„Ég vil afnema hina svo kölluðu 25 ára „reglu“ við innritun nemenda í framhaldsskóla. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafa ekki borist umkvartanir vegna synjunar um skólavist sökum aldurs og líkur á að það reyni á slíkt eru hverfandi. Sérstaklega í ljósi betri fjármögnunar framhaldsskólastigins. Ég er þeirrar skoðunar að einfalda eigi regluverk ef ekki er þörf fyrir það. Þessi aðgerð er skref í þá átt,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.


Stutt samantekt um fyrirhugaða breytingu reglugerðarinnar:

Með reglugerðinni er mælt fyrir um tvær efnisbreytingar á núgildandi reglugerð. Annars vegar er kveðið á um brottfall orðanna „og niðurstöður samræmdra könnunarprófa“ úr 4. mgr. 2. gr. og hins vegar brottfalls g-liðar 3. mgr. 7. gr. sem kveður á um forgang nemenda, sem eru 25 ára og yngri, til framhaldskólavistar. Framangreindu að auki er lögð til breytt tilvísun til framhaldsskólalaganna, en í núverandi reglugerð er vísað til 32. gr. a en rétt er að vísa til 33. gr. a.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira