Hoppa yfir valmynd
22. mars 2018 Dómsmálaráðuneytið

Vegna athugasemda við breytingu á reglugerð um útlendinga

Í tilefni af ummælum lögfræðings hjá Rauða krossinum um breytingu á reglugerð um útlendinga, sem birt var 14. mars sl., sem hefur haldið því fram að ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda RKÍ vill ráðuneytið benda á eftirfarandi:

Í reglugerðinnni er kveðið á um viðmiðunarreglur um í hvaða tilvikum skuli taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, hafi útlendingur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því og falla undir málsmeðferð skv. Dyflinnarreglugerðinni. Nálgast má reglugerðina hér.

Með reglugerðinni er leitast við að eyða þeirri óvissu sem ríkt hefur við framkvæmd útlendingalaganna hvað framangreind atriði varðar. Í reglugerðinni er að finna almenn viðmið sem líta ber til við meðferð mála og því ekki tæmandi talin þau tilvik sem stjórnvöldum ber eða er heimilt að líta til við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd í þeim tilvikum er Dyflinnarreglugerðin á við. Hvert og eitt mál er ávallt metið sérstaklega og stjórnvöldum látið eftir mat á vægi þeirra sjónarmiða sem fram koma í reglugerðinni.

Drög að reglugerðinni voru birt á samráðsgátt Stjórnarráðsins til opinbers samráðs í tvær vikur og gafst öllum færi á að koma að athugasemdum. Umsagnir bárust m.a. frá Rauða krossinum, Barnaheillum og Landssamtökunum Þroskahjálp. Rauða krossinum var jafnframt boðið til fundar í dómsmálaráðuneytinu í þeim tilgangi að fara betur yfir umsögn þeirra og efni reglugerðarinnar. Tekið var tillit til athugasemda Rauða krossins þannig að mat stjórnvalda var rýmkað hvað varðar það að heilbrigðisþjónusta teldist ekki óaðgengileg þrátt fyrir að greiða þyrfti fyrir hana. Þá var einnig tekið tillit til athugasemda sem fram komu í öðrum umsögnum s.s. athugasemda Landssamtakanna Þroskahjálpar um að líta ætti einnig til þess hvort viðkomandi gæti átt hættu á að fá ekki þjónustu í viðtökuríki vegna fötlunar sinnar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum