Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Drög að breytingum á reglugerð um fráveitur og skólp í umsögn

Drög að breytingum á reglugerð um fráveitur og skólp í umsögn - myndJohannes Jansson/Norden.org

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að breytingum á reglugerð um fráveitur og skólp.

Markmið með endurskoðun reglugerðarinnar eru að einfalda ákvæði hennar og gera hana skýrari, bæta skráningu og upplýsingar um fráveitur og setja viðmiðunargildi um efnainnihald skólps sem losað er frá iðnaðarstarfsemi í fráveitur. Þá er breytingunum ætlað að skerpa á ábyrgð leyfishafa starfsleyfa fyrir iðnaðarstarfsemi um hreinsun frárennslis.

Breyttar aðstæður og lagaumhverfi síðan 1999 hafa leitt til þess að breytingar á reglugerðinni eru orðnar tímabærar. Sett er fram meginregla um hreinsun skólps með tölulegum viðmiðum og tvær undantekningar eru frá þeirri reglu, varðandi viðkvæm og síður viðkvæm svæði. Sett eru skýrari ákvæði um hvernig flokka eigi svæði sem viðkvæm eða síður viðkvæm. Ákvæði eru um gagnagátt um fráveitur, sem er ætlað að bæta upplýsingar og einfalda upplýsingagjöf. Settur er leiðbeinandi listi og viðmiðunargildi fyrir þætti sem spillt geta fráveitubúnaði og virkni hreinsibúnaðar.

Samhliða þessum breytingum er gert ráð fyrir breytingum á reglugerð um starfsleyfi sem getur haft í för með mengun, m.a. að starfsleyfisskylda miðist við hreinsivirki sem þjóni 200 persónueiningum og fleiri. Í athugun er einnig breyting á byggingarreglugerð sem fæli í sér bann við notkun sorpkvarna.

Nefnd sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði vann drög að endurskoðaðri reglugerð um fráveitur og skólp. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Umhverfisstofnun og Samorku, auk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Tillaga nefndarinnar var send út til umsagnar 16. júní 2017 og bárust 13 umsagnir um hana og eru þau drög sem nú eru kynnt uppfærð tillaga nefndarinnar um endurskoðaða reglugerð.

Umsögnum skal skilað í gegn um Samráðsgátt Stjórnarráðsins og er frestur til þess til 25. apríl næstkomandi.

Drög að breytingum á reglugerð um fráveitur og skólp á Samráðsgátt Stjórnarráðsins

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum