Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Áframhaldandi sókn á háskólastigi

Áframhaldandi sókn á háskólastigi - myndVelferðarráðuneytið - ME

Undanfarin ár hafa framlög til háskólastigsins verið aukin töluvert. Framlögin jukust um 15,2% að nafnvirði milli áranna 2016 og 2018 en vísbendingar eru um að sú aukning sé umfram það sem gerst hefur í öðrum Evrópuríkjum. Nú þegar ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023 liggur fyrir má sjá að fyrirhugað er að fjárveitingar til háskólastigins munu halda áfram að aukast og hækki upp í 47,2 milljarða kr. árið 2023, sem þá er vöxtur upp á tæp 12% á tímabilinu.

Heildarfjárheimildir til háskólastigsins uxu úr rúmlega 42,3 milljörðum kr. árið 2017 í 44,2 milljarða kr. á þessu ári. Þetta er eru háar fjárhæðir en rannsóknir sýna að hver króna sem fer í fjárfestingu á háskólastiginu skilar sér áttfalt til baka til samfélagsins – fjárfesting í menntun hefur dýrmæt margfeldisáhrif. „Öflugir háskólar eru forsenda þess að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar ásamt því að stuðla að stöðugu og fyrirsjáanlegu starfsumhverfi fyrirtækja. Við ætlum að halda áfram að sækja fram af krafti í menntamálum og auka fjárfestingu í háskólastiginu líkt og birtist í fjármálaætlun næstu ára,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Markmiðið er að framlög til háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna. Framlög á hvern nemanda munu hækka og það eykur líkur á auknum gæðum í námi og námsumhverfi. Innan skólanna fer hluti þessa fjár í að efla rannsóknir og þróun en öflugt rannsóknarstarf er lykilþáttur í þekkingarsköpun í nútímasamfélagi; með því að ýta undir tengsl rannsókna í háskólum við nýsköpunarstarf og atvinnulíf má auka efnahagsleg áhrif háskólastarfs. Hvetjandi námsumhverfi og fjölbreyttir valkostir í starfs- og verknámi eru einnig mikilvægir. Með öflugum háskólum og rannsóknarstofnunum verðum við betur í stakk búin til að takast á við samfélagslegar áskoranir framtíðarinnar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn