Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2018 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra hélt ávarp á ársfundi Seðlabanka Íslands

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hélt ávarp á ársfundi Seðlabanka Íslands í gær. 
 
Í ávarpi sínu fjallaði Katrín um þau tvö meginverkefni sem Íslendingar stóðu frammi fyrir eftir efnahagshrunið sem voru endurreisn efnahagslífsins og að byggja upp traust. 
 
Katrín fjallaði um sáttmála ríkisstjórnarinnar sem fjallar um leiðir til að ná fram félagslegum, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika. Huga þyrfti að samspili helstu stoða efnahagsumhverfisins; peningastefnu, fjármálastefnu hins opinbera og vinnumarkaði. Katrín sagði að nýkynnt fjármálaáætlun sýndi að nýta ætti það svigrúm sem hefur skapast vegna lækkunar skulda og vaxtagreiðslna til að byggja upp innviði, sér í lagi í samgöngum og til að auka framlög til rekstrar heilbrigðismála, velferðarmála, mennta- og menningarmála, umhverfismála og almanna- og réttaröryggis. Þessu til viðbótar væri gert ráð fyrir skattkerfisbreytingum en mikilvægt samtal væri framundan milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um hvernig þær mættu nýtast sem best lágtekjuhópum og fólki með lægri millitekjur. 
 
Að lokum þakkaði Katrín bankaráði Seðlabankans, seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og öðrum starfsmönnum bankans fyrir vel unnin störf. Að lokinni formlegri dagskrá afhenti hún Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, sparibauk úr eigin sparibaukasafni við nokkra lukku ársfundargesta. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum